Home Fréttir Í fréttum Vantar krana og mannskap til að byggja meira

Vantar krana og mannskap til að byggja meira

132
0
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að Reykjavík geti ekki ein komið fasteignamarkaðinum á strik. Hann segir að töluvert meiri kraft þurfi í byggingariðnað, sem og aukinn mannskap, til að halda á spöðunum í uppbyggingu.

Formaður Samtaka iðnaðarins sagði í fréttum RÚV í gær að staðan á húsnæðismarkaði væri grafalvarleg. Aðeins um þriðjungur þeirra íbúða sem þörf væri fyrir hér á landi yrði byggður næstu tvö árin.

<>

Borgarstjóri tekur undir það að byggja þurfi hraðar en það þurfi tvo til að dansa. „Áhyggjur okkar lúta meira að því að það sé ekki nógu mikið af stórum og öflugum verktökum til að takast á við þessi verkefni. Allir sem hafa reynt að fá iðnaðarmann bara heim til sín þekkja það að þar hefur þrengt svolítið að. Ég er hins vegar sammála samtökum iðnaðarins að það þarf að byggja og byggja hratt.“

Samkvæmt Hagdeild Íbúðalánasjóðs þyrfti íbúðum að fjölga um 17.000 á tímabilinu frá 2017 út árið 2019, til að mæta þörf og uppsöfnuðum skorti. Dagur segir að þær tölur geri ráð fyrir að allt ungt fólk í foreldrahúsum geti keypt sér íbúð á næstu tveimur eða þremur árum. Það sé mjög bratt áætlað. „Stefna borgarinnar er að auka framboð sérstaklega á eftirsóttum svæðum þar sem fólk hefur efni á að búa, samgöngukostnaður er ekki of hár til þess að venjulegt fólk geti komið sér fyrir, í leigu eða eigin íbúðum og líka ungt fólk.“

Staðan sé betri en oft áður og gæti verið mun betri ef mannskapur væri til.  „Núna er töluvert meira til af skipulögðum lóðum og byggingarsvæðum heldur en er í byggingu, þannig það væri hægt að tvöfalda kraftinn ef það væri nógu mikið af krönum og mannskap til þess að gera það og fjölga þannig nýbyggðum íbúðum í Reykjavík á næstu árum.“ segir Dagur.

Heimild: Ruv.is