Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hefjast brátt á nýju veitingahúsi við Arnarnesvog í Garðabæ

Framkvæmdir hefjast brátt á nýju veitingahúsi við Arnarnesvog í Garðabæ

362
0
Veitingahúsið verður 500 fermetrar að stærð og verður klætt lerki. Mynd: Zeppelin Arkitektar

Framkvæmdir hefjast brátt á nýju veitingahúsi í Ránargrund við Arnarnesvog í Garðabæ, en lengi hafa verið metnaðarfullar áætlanir um lóðina sem ekki hafa gengið eftir. Um er að ræða 500 fermetra veitingahús sem er hvort tveggja hefðbundinn veitingastaður og veislusalur. Veitingahúsið mun rúma 40 gesti en veitingasalurinn 130 gesti.

<>

„Við erum búnir að ganga frá verksamningi við X-JB Byggingaverktaka um byggingu veitingahúss í Ránargrund. Það verður allt kapp lagt við að ráðast í framkvæmdir og koma húsinu í rekstrarhæft ástand sem fyrst,“ segir Sigurbjörn Ingimundarson, framkvæmdastjóri Arnarnesvogs ehf. Félagið annast byggingu, eignarhald og útleigu veitingahússins.

Áætlaður framkvæmdatími veitingahússins samkvæmt verksamningi er allt að 12 mánuðir. Sigurbjörn segir framkvæmdakostnaðinn vera trúnaðarmál.

Arnarnesvogur ehf. hefur verið handhafi rúmlega 4.000 fermetra lóðar við Ránargrund 4 frá því á síðari hluta ársins 2016. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að rekstur veitingahússins myndi hefjast í árslok 2017. Framkvæmdir á lóðinni hafa hins vegar dregist á langinn vegna skipulagsbreytinga í Garðabæ.

Að baki Arnarnesvogi standa meðal annars Símon Sigurður Sigurpálsson, fyrrum kaupmaður í Þinni verslun í Breiðholti og Kjörbúð Hraunbæjar, auk tveggja félaga með eignarhald sem rakið er til eyjarinnar Sankti Kristófer og Nevis í Karíbahafi.

Gamall draumur að rætast

„Þarna er gamall draumur margra Garðbæinga að rætast,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. „Við teljum þetta vera mikilvægt verkefni fyrir bæinn, enda má segja að það hafi verið þörf á þessu. Það eru ekki mörg veitingahús eða samkomustaðir hér í bænum, þannig að þetta mun lífga upp á bæjarbraginn.“

Ekki er langt síðan engin veitingahús með vínveitingaleyfi voru í Garðabæ. Í dag eru þau þrjú: IKEA, Mathús Garðabæjar og Álftaneskaffi. Ekki er gefið upp hver rekstraraðili veitingahússins við Arnarnesvog verði eða hvers konar veitingahús um ræðir, en búið er að skrifa undir leigusamning.

Heimild: Vb.is