Home Fréttir Í fréttum Mæta húsnæðisþörf með gámaíbúðum

Mæta húsnæðisþörf með gámaíbúðum

139
0
Grunninn má sjá til vinstri á myndinni. Mynd: Reynir Sveinsson
„Við getum ekki sætt okkur við að horfa upp á fólk á götunni,“ segir forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar. Verið er að útbúa gámaíbúðir fyrir einstaklinga og litlar fjölskyldur til að mæta brýnni húsnæðisþörf á svæðinu. Fyrstu íbúarnir flytja inn í gámana í febrúar.

Í Sandgerði liggja inni  tuttugu umsóknir um félagslegt húsnæði, en þar er ekkert húsnæði að fá. Mikill húsnæðisskortur hefur raunar verið á Suðurnesjunum öllum þar sem íbúum á svæðinu hefur fjölgað mikið undanfarið og húsnæðisverð rokið upp.

<>

„Vandi okkar er eins og vandi mjög margra sveitarfélaga á suðvesturhorninu að húsnæði er orðið mjög dýrt. Þannig að það er töluvert af fólki sem á erfitt með að tryggja sér þak yfir höfuðið. Fólk sem hefur ekki getu til að kaupa og fólk sem á erfitt með að finna leiguhúsnæði á erfiðum leigumarkaði. Þannig að jú, hann er aðkallandi þessi húsnæðisvandi sem er í bæjarfélaginu,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar.

Flestir jákvæðir

Í haust var því tekin ákvörðun um að festa kaup á nokkrum gámaíbúðum. Þær eru ýmist 25 eða 50 fermetrar og eru hugsaðar fyrir einstaklinga og minni fjölskyldur. Uppsetning þeirra er nú á lokametrunum. Gámaíbúðir eru stundum notaðar sem tímabundið húsnæði, til dæmis fyrir verkamenn, en Ólafur segir að fólki lítist alment vel á þennan kost.

„Þetta snýst náttúrlega um að hafa skjól. Að þurfa ekki að vera á flakki milli aðstandenda og kannski í óöryggi. Þannig að ég hef ekki heyrt annað en að taki þessu vel. En þetta er náttúrlega tímabundið úrræði. Það ætlar sér enginn að búa í svona gámahúsnæði til frambúðar, en þetta er betra en að vera algjörlega húsnæðislaus,“ segir hann.

Vandinn sé svo mikill að það yrði of seinlegt að ætla að leysa hann með því að byrja að byggja.

„Þetta er fljótleg leið. Við vorum með mikinn vanda og gátum ekki beðið. Við getum ekki sætt okkur við það að horfa á fólk á götunni og án húsnæðis án þess að bregðast við,“ segir Ólafur Þór Ólafsson.

Heimild: Ruv.is