Home Fréttir Í fréttum Rúmlega 80 prósent lóða frá borginni fyrir leiguíbúðir

Rúmlega 80 prósent lóða frá borginni fyrir leiguíbúðir

83
0
Félagsstofnun stúdenta er þegar byrjuð að byggja 244 íbúðir við Sæmundargötu í Vatnsmýri. Mynd: Vísir/Hanna

Á síðasta ári úthlutaði Reykjavíkurborg lóðum fyrir 1.711 íbúðir. Þar af var 1.422 lóðum úthlutað til félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni en þar eru íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara og lágtekjufólk í meirihluta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Því eru nær 83 prósent lóðaúthlutana séu til slíkra félaga. Í tilkynningunni kemur fram að meirihluti lóðanna sé ekki á hefðbundnum þéttingarreitum í miðborginni. Uppbyggingin muni hins vegar þétta byggð.

<>

Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, segir ánægjulegt að sjá lóðaúthlutanir Reykjavíkurborgar aukast. „Einkum er ánægjulegt að sjá að stærstu úthlutanirnar fara til félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og munu bjóða fram leiguíbúðir fyrir hópa sem eiga erfitt með að fóta sig á húsnæðismarkaði.“

Hún segir Íbúðalánasjóð ekki hafa lagt mat á hvað vanti margar íbúðir í borginni, en miðað við áætlun sem gefin var út síðasta vor vantaði hátt í 5.000 íbúðir á landsvísu til að jafnvægi næðist á markaði.

Þeir byggingaverktakar sem blaðið ræddi við eru ekki sáttir við stöðuna og segja að það sárvanti lóðir í Reykjavík á almennan markað. „Það er eiginlega ekkert að hafa af lóðum hjá borginni. Þetta fer eiginlega allt í félagslega kerfið. Hinn hlutinn situr eftir,“ segir Gunnar Þorláksson, annar eigenda Byggingafélags Gunnars og Gylfa.

„Til að þessi markaður verði í jafnvægi þarf íbúðir fyrir fólk sem er að fara af stað og vill eiga íbúðir. En þetta er ekki í boði,“ segir Gunnar.

Hann segir BYGG vera að klára Sjálandshverfið í Garðabæ og verið sé að byrja á nýju bryggjuhverfi í Kópavogi. Þá sé verið að byggja í Lundinum.

Heimild: Visir.is