Home Fréttir Í fréttum Krefjast skaðabóta frá Akureyrarbæ vegna nýju húsanna við Drottingarbraut

Krefjast skaðabóta frá Akureyrarbæ vegna nýju húsanna við Drottingarbraut

182
0
Mynd: Ruv.is

Eigendur íbúða í Hafnarstræti 88 eru alls ekki sáttir við nýbyggingarnar á Drottningarbrautarreit, sem nú heitir Austurbrú, og hafa fengið sér lögfræðing til að skoða málið. Nú hefur verið sett fram skaðabótarkrafa eftir að skipulagsráð Akureyrarbæjar hafnaði kröfunni.

<>

Árið 2012 var deiliskipulag við Drottningarbrautarreit samþykkt þrátt fyrir mótmæli tæplega 1600 Akureyringa sem skiluðu inn undirskriftarlista sem dæmdur var ógildur sökum of fárra undirskrifta en margar þeirra voru dæmdar ógildar og töldu því ekki endurspegla 10% bæjarins. Kaffið greinir þó frá því að nokkur hundruð hafi bæst við eftir að listanum var skilað inn til skipulagsnefndar.
Framkvæmdir við Austurbrú hófust vorið 2016 en mikið hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum, fjöldi pistla skrifaðir um framkvæmdina og mjög skiptar skoðanir virðast ríkja meðal Akureyringa um skipulagið í heild sinni. Sumir telja nýbyggingarnar góða viðbót í miðbæinn meðan aðrir eru harðlega á móti þessu og þá aðallega vegna staðsetningarinnar, en húsin eru reist fyrir framan Hafnarstræti 84-88, sem allt eru yfir hundrað ára gömul og nýuppgerð hús.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hafnaði bótakröfunni
Lögfræðingur eigenda Hafnarstrætis 88 er Andrés Már Magnússon, lögmaður hjá Prima lögmönnum en hann gerði kröfu um skaðabætur f.h.   eigendanna hjá Skipulagsráði Akureyrarbæjar í byrjun árs 2017 sem síðan var hafnað 23. ágúst sl. þar sem skipulagsráð taldi sig ekki skaðabótaskylt gagnvart eigendum íbúða í Hafnarstræti 88.
Kröfunni höfnuðu þeir á grundvelli þess að deiliskipulag svæðisins frá 1981, sem síðan var breytt árið 2004, var aðeins í gildi þangað til nýja skipulagið tók yfir 2012. Þá segja þeir að eldra deiliskipulagið hafi gert ráð fyrir mun meiri útsýnisskerðingu húsa við Hafnarstræti en núgildandi deiliskipulag.

Dóra Hartmannsdóttir, einn eigenda í Hafnarstræti 88, segist í samtali við Kaffid.is aldrei hafa heyrt á þessi rök minnst fyrr en hún fékk bréfið frá Skipulagsráði um að kröfunni væri hafnað. ,,Ég hef ekki hugmynd um hvaða skipulag þau eru að tala um því ég hugsa að útsýnisskerðingin gæti ekki orðið mikið meiri nema það yrði hreinlega byggt inn í húsið okkar.“

Núverandi útsýni úr Hafnarstræti 88.

Ódýrasta íbúðin á tæplega 60 milljónir
Við Austurbrú verða reist þrjú stór íbúðarhús sem öll koma til með að hafa 16 íbúðir hvert. Fyrsta húsið af þremur er tilbúið og seinna húsið er komið langt á leið. Öll eru húsin með útsýni yfir í Vaðlaheiði og út fjörðinn, bæði til norðurs og suðurs, eða útsýnið sem íbúar í Hafnarstræti misstu eftir framkvæmdirnar. Íbúð 0101 var fyrsta íbúðin til að koma á sölu og er 121 fermetri að stærð, sem samanstendur af tveimur svefnherbergjum, einu baðherbergi, einni stofu og eldhúsi. Hún er til sölu á rétt tæpar 60 milljónir, eða 59.200.000. Líklega er þetta með ódýrari íbúðunum þar sem hún er aðeins þriggja herbergja og á jarðhæð, en í boði eru allt upp í fimm herbergja íbúðir.

Íbúar í Hafnarstræti leita réttar síns
Nú hafa eigendur óskað dómkvaðningu matsmanns. Matsbeiðnin felur í sér að sérstakur matsmaður meti hver verðrýrnun fasteignanna er í kjölfar nýju húsanna við Austurbrú 2.

Útsýnið úr íbúð í Hafnarstræti 88 þegar framkvæmdir voru að hefjast.

Matið er þríþætt og kemur fyrst og fremst inn á útsýnisskerðingu og sjónmengun, þar sem húsin eru reist alveg við lóðarmörk Hafnarstrætis 88 og eru hærri en þ.a.l. er útsýnið úr öllum íbúðum hússins horfið. Annar þáttur matsins er að meta í kjölfarið hvaða áhrif byggingarnar hafa á dagsbirtu, þ.e. eigendur vilja meina að sólarljós sé af skornum skammti og birta minnkað verulega vegna hússins sem nú stendur fyrir öllum gluggum. Þriðji þáttur matsins kemur að breytingum á lóðinni en alveg við lóðarmörk Hafnarstrætis 88 er nú steyptur veggur, sem afmarkar innkeyrslu í bílastæðahús íbúðanna við Austurbrú.

Andrés Már Magnússon lögfræðingur, segir í samtali við Kaffid.is, að matsbeiðnin hafi verið send dómnum í síðustu viku. Þá muni sérfræðingur meta hvort og hversu mikil verðrýrnun hefur orðið í kjölfarið af því að bærinn tók þá ákvörðun að byggja þarna.
Hann segir það gefa auga leið að útsýni úr fasteign hafi áhrif á verðmæti hennar. Þá sé fasteign með góðu útsýni almennt verðmætari en fasteign án þess. Í þessu tiltekna máli segir hann einnig ákveðna skerðingu á nýtingarmöguleikum eigenda lóðarinnar við Hafnarstræti 88 þegar byggt er á lóðarmörkum, eins og gert var í þessu tilfelli.

Hann segir jafnframt að ekki þurfi að leita lengra en í Naustahverfi til að finna dæmi um verðmæti útsýnis. Þá nefnir hann Krókeyrarnöf, sem stendur syðst í Naustahverfi á Akureyri, en þar fara verðmætin á húsunum eftir því hvoru megin við götuna þú býrð. Þar eru t.d. nokkur mjög áþekk hús sem standa sitt hvoru megin við götuna. Húsin öðru megin eru með útsýni en hin ekki og munurinn í verði á húsunum skiptir mörgum milljónum króna.

Andrés segir aðalatriðið í matsbeiðninni vera að meta hversu mikið verðgildi íbúðanna lækkar þegar fjölbýlishús er reist alveg upp við húsin.

,,Eftir breytingar á deiliskipulagi og reisingu hússins er sjónmengun mikil og útsýni eigenda verulega skert. Á lóðarmörkum fasteignanna er ennfremur gert ráð fyrir 3-5 m. háum vegg sem skerðir enn frekar útsýni neðri hæða sem og takmarkar verulega möguleg afnot af bakgarði. Telja eigendur að breytingar á deiliskipulagi, framkvæmdir á svæðinu, sem og þau hús sem reist hafa verið lækki verulega markaðsvirði fasteigna þeirra. Að auki telja eigendur að birta í fasteign þeirra hafi minnkað verulega. Sólarljós inn í neðri hæðir fasteignarinnar og á lóð er nær ekkert. Matsbeiðendur hyggjast höfða mál m.a. á grundvelli 51 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og krefjast bóta,“ segir í matsbeiðninni sem var skilað fyrir dóm í síðustu viku.

Mjög ósátt við skipulag og framkvæmdir
Dóra Hartmannsdóttir er ein þeirra eigenda í Hafnarstræti 88 sem stendur á bakvið matsbeiðnina. Hún segir í samtali við Kaffið að hún sé mjög ósátt við framkvæmdirnar og framkomu Akureyrarbæjar og Skipulagsnefndar í ferlinu öllu.

,,Þetta er náttúrlega ömurlegt. Það er byggt hérna gjörsamlega fyrir okkur án þess að reyna að koma á einhvern hátt til móts við þá sem hérna búa fyrir. Framkoma þeirra sem standa að þessu skipulagi hefur síður en svo verið til fyrirmyndar. Það hefur ekkert verið gert fyrir okkur íbúanna í öllu þessu ferli, það er skelfilegt að finna bílastæði t.d. og lítið hægt að nota okkar einkalóð í slíkt þar sem lóðin okkar hefur mikið verið notuð í leyfisleysi fyrir þessar framkvæmdir. Það er hreinlega allt við þetta lélegt og við viljum bara athuga hvort að það geti í alvörunni verið rétt að það eigi bara að fara svona með okkur. Þess vegna fengum við lögfræðing í málið,“ segir Dóra.

Útsýnið úr Hafnarstræti 88 hefur horfið með nýju fjölbýlishúsunum sem nú standa þar fyrir framan.

Íbúar í Hafnarstræti 88 segja litla sem enga birtu ná að húsunum núna.

Mynd tekin þegar framkvæmdir hófust.

Heimild:Kaffid.is