
Undirritaður var verksamningur milli Munck og Seltjarnarnesbæjar um stækkun og endurbætur á íþróttamiðstöð bæjarins þann 16. janúar sl. Auk íþróttasalar fyrir fimleika verður byggð búningsaðstaða, þreksalur, áhaldageymsla, betrumbætt anddyri og fleira sem tengist íþróttaiðkun.
Í framkvæmdina bárust tilboð frá tveimur aðilum og samþykkti bæjarráð á fundi sínum nr. 58, þann 14. desember 2017 að taka tilboði lægst bjóðanda sem var frá Munck Íslandi ehf. Tilboð þeirra hljóðaði upp á 703 mkr. Sem var mjög nálægt upphaflegri kostnaðaráætlun bæjarins en sú hljóðaði upp á 690 mkr.
Framkvæmdir hefjast í næstu viku og verður þá jafnframt ný gönguleið tekin í notkun til að tryggja öryggi nemenda og annarra gangandi vegfarandi á meðan á framkvæmdum stendur. Um leið og húseigendur í nær liggjandi húsum og vegfarendur eru beðnir forláts vegna þeirrar truflunar sem framkvæmdirnar og notkun vinnuvéla mun hafa í för með sér eru þeir vinsamlegast beðnir um að taka sérstakt tillit til aðstæðna.
Áætluð verklok eru 1. maí 2019.
Heimild: Seltjarnarnesbær