Home Fréttir Í fréttum Reykjanesbrautin „lífshættuleg“

Reykjanesbrautin „lífshættuleg“

132
0
Reykjanesbrautin er lífshættuleg í vissum veðurskilyrðum og aðeins tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verður. Þetta segir bæjarstjórinn í Reykjanesbæ. Vegagerðin segir að ástand brautarinnar sé ekki nógu gott.

Reykjanesbrautin er einhver fjölfarnasti vegur landsins og sem dæmi má nefna að næstum allir ferðamenn sem hingað koma fara um hann. Þótt búið sé að tvöfalda stóran hluta brautarinnar hafa þeir sem nota hana hvað mest miklar áhyggjur af öryggi sínu þegar þeir aka eftir henni.

<>

„Ég var að keyra Reykjanesbrautina heim til Keflavíkur í gærkvöldi, í úrhellis rigningu,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. „Brautin er mjög grafin, og það safnast mikið vatn í þennan grafning, og við þessar aðstæður sem voru þarna í gær var þetta klárlega lífshættuleg staða sem við vorum í. Mér hefur aldrei liðið svona undir stýri á Reykjanesbrautinni eins og í gær.“

„Getur bara ekki gengið svona“

Kjartan skrifaði um málið á Facebook-síðu sinni í gær. Fjölmargir tóku undir með honum og sögðu veginn hættulegan.

„Ég missti bílinn, hann rásaði mikið, og ég sá að fleiri voru í sömu sporum, og ég tek það fram að ég ók langt undir leyfilegum hámarkshraða, og það gerðu aðrir þarna líka. Þannig að ég óttast að þarna geti orðið mjög alvarleg slys við þessar aðstæður.“

Þær upplýsingar fengust frá Vegagerðinni í dag að þar á bæ sé mönnum kunnugt um að ástand slitlaga á Reykjanesbraut sé víða ekki nógu gott og djúp hjólför séu á nokkrum stöðum. Unnið hafi verið að viðhaldi á brautinni eins og fjárveitingar hafi leyft. Því verði haldið áfram í sumar og verstu staðirnir verði lagfærðir. Það sé hins vegar ljóst að fjármagn til viðhalds vega mörg undanfarin ár hafi engan veginn dugað til að halda ástandi þeirra viðunandi.

Kjartan segir að ítrekað hafi verið bent á mikilvægi þess að laga Reykjanesbrautina.

„Við viljum að það verði gengið þannig frá veginum að hann sé öruggur og að það sé ekki beinlínis lífshættulegt að aka Reykjanesbrautina. Ég tel að svo sé eins og hún er núna. Og síðan þarf að ljúka tvöföldun brautarinnar,“ segir Kjartan. „Það eru 15.000 bílar á dag sem keyra þennan veg og þetta getur bara ekki gengið svona.“

Heimild: Ruv.is