Home Fréttir Í fréttum Ætla að veita síuðu skólpi í Lagarfljót

Ætla að veita síuðu skólpi í Lagarfljót

113
0
Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands telur afturför að loka nokkrum fullkomnum skólphreinsistöðvum á Fljótsdalshéraði. Stöðvarnar eru fullar af regnvatni og fyrir vikið rennur hluti skólpsins lítt hreinsað í Eyvindará. Í staðinn á byggja eina stóra stöð sem hreinsar allt skólp en ekki eins vel og dælir því út í Lagarfljót.

Á Egilsstöðum eru þrjár skólphreinsistöðvar, á bökkum Eyvindarár. Óvíða eru svo fullkomnar stöðvar hér á landi – en þær eru útbúnar með síum, örverur vinna á skólpinu og vatnið er geislað áður en það fer út í ána. Vandamálið er að stöðvarnar eru of litlar meðal við þann vökva sem í þær fer en í sumar þeirra rennur bæði hitaveitu- og regnvatn. Því sleppur skólp fram hjá stöðvunum um yfirföll. Þrátt fyrir að vatnið frá hreinsivirkjunum mælist tandurhreint hefur Heilbrigðiseftirlit Austurlands mælt mengun yfir mörkum við yfirföllin á þeim. „Það er svolítið sorglegt sem íbúi að vera að borga talsvert fyrir hreinsun skólps þegar það er svona mikið að fara fram hjá þeim. Í Eyvindaránni við erum ekki að ná eins mikilli hreinsun þar eins og við hefðum viljað. Það hefur því miður ekki verið mikið unnið í því að tvöfalda kerfið til þess að geta verið bara með skólp á skólphreinsivirkin,“ segir Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

<>

„Afar dýr í rekstri“

Mjög dýrt yrði leggja sérstakar lagnir fyrir regnvatn í stærstan hluta bæjarins og stjórn Hitaveitu Egilsstaða og Fella sem fer með fráveitumálin vill ekki stækka hreinsivirkin eða fjölga þeim. „Þessi hreinsivirki eins og þau eru þá eru þau afar dýr í rekstri og ekki framkvæmanlegt fyrir það fjármagn sem fráveitan hefur, að fara með allt í gegnum slík hreinsivirki,“ segir Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og stjórnarformaður HEF.

Ekkert hreinsivirki er við stærstu skólpútrásina í Egilsstaðavík, aðeins gömul rotþró og mengun hefur mælst neðan við hana. Til að leysa vandann stendur til að leiða allt skólp frá bæði Egilsstöðum og Fellabæ í nýja hreinsistöð við Melshorn og út í Lagarfljót. Kostnaðurinn yrði 550 milljónir á 10 árum. Fullyrt er að kostnaðurinn yrði minni en við núverandi fyrirkomulag. Þar yrði skólpið ekki lengur geislað heldur aðeins síað vel og nær öll seyra tekin frá. Næði því að teljast eins þreps hreinsun en ekki alveg því sem kallað er tveggja þrepa og krafist er inni í landi. „Ef menn eru að tala um að fara þarna bara í eins þreps hreinsun þá finnst mér það vissulega vera afturför. Og jafnvel þó það yrði einhverskonar viðbótarhreinsun sem er ekki jafn ítarleg og þessi lífræna hreinsun þá eru bæði gerlar og lífrænt efni út í viðtakan og það er vissulega afturför,“ segir Helga.

Viðkvæmir viðtakendur

Gunnar er ekki sammála því að þetta yrði afturför. „Og svo skulum við ekkert gleyma því mikla magni sem fer bara í Lagarfljótið nánast óhreinsað. Við erum að leita þarna hagkvæmari lausna og í raun og veru að stórbæta hreinsunina sem verður á heildar frárennslinu frá þéttbýlinu með þessu,“ segir Gunnar.

Hann bendir á að Lagarfljótið sé mun vatnsmeira en Eyvindaráin. Meðalrennsli í fljótinu er 280 rúmmetrar á sekúndu og fer niður í 100 rúmmetra en í Eyvindaránni er rennslið að meðaltali 11 rúmmetrar á sekúndu og fer niður í 1-2 rúmmetra á veturna. Samkvæmt reglugerð eru þó bæði Lagarfljótið og Eyvindaráin skilgreind sem viðkvæmir viðtakendur. Fagráð fráveitna vinnur að því að fá straumþung jökulvötn eins og Lagarfljót verði skilgreind sem þolnari viðtakar við endurskoðun á ESB- reglugerð.

Samkvæmt áætluninni verður hægt að bæta við nýju stöðina þannig að hún næði allir seyru og teldist tveggja þrepa hreinsun en það myndi kosta allt að 250 milljónir til viðbótar.

Heimild: Ruv.is