Home Fréttir Í fréttum Umferð eykst á meðan milljarða vantar

Umferð eykst á meðan milljarða vantar

203
0
Mynd: Vísir/Ernir
Umferð um hringveginn jókst um tæp ellefu prósent á síðasta ári, og hefur aukist um ríflega fjörutíu og fjögur prósent á síðustu sex árum. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir fjárfestingaþörf vegakerfisins hlaupa á milljörðum króna.

Samkvæmt samantekt Vegagerðarinnar jókst bílaumferð á hringveginum í fyrra um 10,6 prósent frá fyrra ári. Mest jókst umferðin um Suðurland, eða um 15,5 prósent, en hástökkvari ársins er vegurinn um Mýrdalssand, þar sem bílum fjölgaði um nærri fjórðung milli ára. Frá því að ferðamannastraumurinn hófst af fullum þunga árið 2012, hefur bílaumferð um þjóðveginn aukist um 44,4 prósent, eða um hátt í tuttugu og fimm þúsund bíla.

<>

Mörg þörf verkefni bíða

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir vegakerfið standa undir umferðinni, þó vissulega bíði mörg þörf verkefni til að bæta vegakerfið og til að halda í horfinu þrátt fyrir að bætt hafi verið í viðhaldið á undanförnum árum. Þá eigi Vegagerðin langt í land með að vinna upp hala sem myndaðist eftir niðurskurð í kjölfar efnahagshrunsins, til að koma vegakerfinu í ásættanlegt horf.

„Það hleypur á milljörðum sem vantar í viðhaldið til þess við náum þessu hratt og vel upp í sama horf og það var áður,“ segir Pétur í samtali við fréttastofu. „Það sama á við um stofnframkvæmdirnar, þessa nýju vegagerð sem við þurfum að fara í, það hleypur líka á milljörðum á ári, sem þar þyrfti að vera ef vel ætti að vera, og það sama getum við raunverulega sagt um vetrarþjónustuna.“

Raunhækkun upp á 300 milljónir

Nokkur umræða skapaðist um skort á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar eftir hörmulegt rútuslys í Eldhrauni milli jóla og nýárs, en vetrarumferð, og þá sérstaklega ferðamanna, um hringveginn eykst ört ár frá ári. Pétur segir að það myndi kosta hundruð milljóna að efla þjónustuna lítillega, sem ekki sé úr að spila.

Þá bendir hann á að það vanti fimmtán milljarða króna til að fjármagna samgönguáætlun, og aukning fjárframlaga til Vegagerðarinnar milli fjárlaga nemi í raun 300 milljónum króna, eftir tólf hundruð milljóna króna leiðréttingu í fjáraukalögum sem samþykkt voru snemma á síðasta ári. En merkir upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar að vegaframkvæmdir séu ofarlega á forgangslista stjórnvalda?

„Menn tala alla vega mikið um samgöngumál, og ég held ég segi ekkert meira heldur en það,“ segir Pétur. „Þau eru ofarlega á blaði, það er ljóst, en fjárveitingarnar eru kannski ekki alveg í samræmi við það.“

Heimild: Ruv.is