Home Fréttir Í fréttum Nýr vegur í botni Skriðdals boðinn út í vor

Nýr vegur í botni Skriðdals boðinn út í vor

158
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
480 milljónum króna verður varið í að endurbæta veginn í botni Skriðdals á Héraði og leggja á hann bundið slitlag samkvæmt breytingum á fjárlögum næsta árs sem samþykktar voru á Alþingi fyrir jól.

Vegurinn um Skriðdal var þjóðvegur 1 þar til fyrir skömmu að vegnúmerum á Austurlandi var breytt. Vegurinn verður þó áfram mjög fjölfarinn enda stysta leiðin milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða. Þegar framkvæmdum lýkur í Skriðdal og í Berufjarðarbotni er Breiðdalsheiðin þar á milli eini spottinn á hinum gamla þjóðvegi 1 sem er án bundins slitlags.

<>

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er stefnt að því að hægt verði að bjóða verkið út í vor. Um er að ræða nýjan 6 kílómetra langan veg að mestu á sama svæði og gamli vegurinn en á um 2 kílómetra kafla færist hann um 20- 60 metra frá núverandi veglínu. Engin brúargerð er inni í þessum áformum.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi fagnaði ákvörðun um framkvæmdirnar í tilkynningu sem send var út í morgun. Þar var því einnig fangað að dregin hafi verið til baka fyrirhugaður niðurskurður á framlagi til Náttúrustofu Austurlands og bætt við framlög til Heilbrigðisstofnunar Austurlands þannig að væntanlega komi ekki til skerðingar þjónustu hjá stofnuninni.

Einnig var samþykkt að verja 200 milljónum til endurbóta á Grindavíkurvegi til að auka umferðaröryggi og 75 milljónir fara aukalega í að styrkja almenningssamgöngur á landsbyggðinni.

Heimild: Ruv.is