Home Fréttir Í fréttum Gatna­mót­in við Hafnartorg til­bú­in næsta vor

Gatna­mót­in við Hafnartorg til­bú­in næsta vor

217
0
Svona munu gatna­mót Geirs­götu/​Lækj­ar­götu/​Kalkofns­veg­ar líta út þegar fram­kvæmd­um lýk­ur á næsta ári. Hér er horft frá Arn­ar­hóli.

Fram­kvæmd­ir við gatna­mót Geirs­götu/​Lækj­ar­götu/​Kalkofns­veg­ar hafa taf­ist um­tals­vert og mun þeim ekki ljúka fyrr en næsta vor.

<>

Fram­kvæmd­ir við gatna­mót­in hóf­ust í lok mars síðastliðins og var göt­un­um þá lokað að hluta. Til stóð að hleypa um­ferð á gatna­mót­in í ág­úst en það dróst fram í nóv­em­ber.

Í sam­ráði við þau fyr­ir­tæki sem vinna að upp­bygg­ingu á svæðinu voru gerðar breyt­ing­ar á áætl­un­um til að skapa þeim svig­rúm við upp­bygg­ing­una, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Jóns Hall­dórs Jónas­son­ar, upp­lýs­inga­full­trúa hjá Reykja­vík­ur­borg.

Gatna­mót­in áttu að vera full­frá­geng­in núna í des­em­ber en frost og kuldi komu í veg fyr­ir það. Mal­bik­un og frá­gangi svæðis­ins verður frestað til næsta vors. Gert er ráð fyr­ir að frá­gangi á þessu svæði verði að fullu lokið í apríl 2018. Gatna­mót­in voru færð nokkra metra í vesturátt. Útbú­in voru svo­kölluð T-gatna­mót í stað sveigðrar Geirs­götu eins og áður var. 30 kíló­metra há­marks­hraði verður á þess­um göt­um. Eft­ir fram­kvæmd­irn­ar verður Geirs­gat­an horn­rétt á Lækj­ar­götu/​Kalkofns­veg.

Lóðaþjón­ust­an ehf. átti lægsta til­boð í verkið að upp­hæð 347,2 millj­ón­ir króna.

Ófrá­gengið við ný­bygg­ing­ar

Svæðið milli Arn­ar­hóls og ný­bygg­inga á Hafn­ar­torgi er einnig ófrá­gengið. Eft­ir er að ganga frá akst­urs­svæðinu aust­an við Hafn­ar­torgið. Hluti af svæðinu er með bráðabirgðamal­biki og hluti þess er ennþá at­hafna­svæði bygg­ing­ar­verk­taka. Gert er ráð fyr­ir að fara í þessa vinnu í sum­ar og á henni að ljúka haustið 2018.

Á Hafn­ar­torgi er verið að byggja sjö hús með versl­un­um og íbúðum, alls 23.350 fer­metr­ar.

Þá er eft­ir að ganga frá gang­stétt norðan við hin nýju hús, þ.e. meðfram Geirs­götu, frá Kola­port­inu að Arn­ar­hóli. Gert er ráð fyr­ir að vinna við frá­gang fari fram í vor og sum­ar í sam­vinnu við bygg­ing­araðila.

Loks er ráðgert að hægt verði að fara í frá­gang á hjóla­stíg norðan Geirs­götu með vor­inu. Frá­gang­ur á gang­stétt verður unn­inn í sam­vinnu við bygg­ing­araðila norðan Geirs­götu. Þær fram­kvæmd­ir eru á áætl­un árið 2019.

Mikl­ar fram­kvæmd­ir

Norðan Geirs­götu, þ.e. á lóðinni næst Hörpu, munu rísa 250 her­bergja hót­el og fimm bygg­ing­ar með 90 íbúðum og versl­un­um. Þá er einnig áformað að nýj­ar höfuðstöðvar Lands­bank­ans rísi á lóðinni.

Gríðar­mikl­ar fram­kvæmd­ir hafa staðið yfir við Gömlu höfn­ina í Reykja­vík und­an­far­in miss­eri, lík­lega þær mestu í sögu höfuðborg­ar­inn­ar. Þeim er hvergi nærri lokið.

Heimild: Mbl.is