Home Fréttir Í fréttum Baltasar borgar 1,6 milljarða fyrir Gufunesið

Baltasar borgar 1,6 milljarða fyrir Gufunesið

213
0
Mynd: Etienne Laurent - EPA
Leikstjórinn Baltasar Kormákur hefur skrifað undir samning við Reykjavíkurborg um kaup á lóðum og byggingarrétti á Gufunesi undir kvikmyndaþorp og íbúðabyggð. Það er fyrirtæki Baltasars, GN Studios, sem stendur að samningnum, sem er alls upp á 1,64 milljarða króna – 1.290 milljónir fyrir byggingarréttinn og 350 milljónir í gatnagerðargjöld sem greiðast síðar. Baltasar fær 10% afslátt af verðinu frá verðmati fasteignasala. Borgarráð samþykkti á aukafundi í dag að heimila söluna.

Afslátturinn er veittur vegna frumkvæðis- og frumkvöðlastarfs fyrirtækisins, að því er segir í tilkynningu borgarinnar. „Talið er hagstætt fyrir Reykjavíkurborg og skapandi greinar í borginni að festa uppbyggingu svæðisins enn frekar í sessi samkvæmt greinargerð skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar sem annaðist samningsgerðina,“ segir þar.

<>

Í tilkynningu borgarinnar segir að Baltasar stefni á að koma upp kvikmyndaþorpi og eins konar miðstöð skapandi greina í Gufunesi í bland við íbúðabyggð og þjónustu. Þetta séu 4.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði og 25.000 fermetrar af íbúðarhúsnæði. Fyrirvari er gerður um að deiliskipulag svæðisins verði samþykkt.

Telja að svæðið hefði átt að fara í almennt útboð

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn samkomulaginu á fundinum í morgun. Staðfesting hans bíðu því samþykktar borgarstjórnar á fyrsta fundi eftir áramót. Í bókun sem þeir lögðu frá á fundinum segir:

„Engan veginn má álykta sem svo að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina séu á móti uppbyggingu á svæðinu í þágu skapandi greina þó svo að þeir telji að gæta verði hagsmuna borgarbúa í hvívetna þegar eignir Reykjavíkurborgar eru seldar. Athugasemdir eru gerðar við það að almennt útboð skuli ekki fara fram á sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhúsnæði í Gufunesi heldur samið við einn ákveðinn aðila.“

Þá segir í bókuninni að tvö verðmöt liggi fyrir á byggingarréttinum. „Við sölu á byggingarrétti kýs meirihlutinn að miða við lægra verðmatið og veita að auki 10% afslátt af því. Það verðmat er unnið af aðila sem sérhæfir sig í sölu og leigu atvinnuhúsnæðis. Umræddar lóðir eru seldar á verði sem er 27% undir verðmati þess fasteignasala, sem hefur mikla reynslu í sölu á íbúðarhúsnæði,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna.

Undanfari þessa samkomulags er samningur sem RVK Studios, annað fyrirtæki Baltasars, gerði í fyrra um kaup á fjórum fasteignum í Gufunesi sem áður tilheyrðu Áburðarverksmiðjunni. Hann greiddi rúmar 300 milljónir fyrir eignirnar og áformar að koma þar upp kvikmyndaveri.

Heimild: Ruv.is