Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar samþykkti nýlega niðurrif húss sem hýsti í áratugi starfsemi Egilssíldar á Siglufirði , en húsið er um þúsund fermetrar og stendur við Gránugötu í hjarta bæjarins og hefur gert síðan 1936.
Eigandi þess er Selvík ehf., en árið 2011 keypti Selvík ehf. tæki og fasteign Egils sjávarafurða og fyrirtækið var þá flutt í fyrrum húsnæði Rækjuvinnslu Ramma hf. Systurfélag Selvík ehf. er Rauðka ehf., sem unnið hefur að uppbyggingu ferðaþjónustu á Siglufirði, en kaup Selvíkur á eignum Egilssíldar var einn liður Rauðku í að laga umhverfið að ferðamannastefnu fyrirtækisins en eins og fólki er nú kunnugt hefur Rauðka lagt mikinn metnað í uppbyggingu á svæðinu við smábátahöfnina á Siglufirði.
Mikið af skipulagsbreytingum er í vændum á Siglufirði og því verður ekki byggt á lóðinni, en erfið krossgatnamót hverfa og tvenn T-gatnamót koma í staðinn. Einnig er gert ráð fyrir að Gránugata, sem liggur á milli Egilssíldar og Ráðhússins, verði færð til suðurs. Þessar framkvæmdir eiga að auka öryggi um leið og almenningssvæðið í miðbænum verður opnara og stærra.
Heimild: Kaffið.is