Home Fréttir Í fréttum Vantar mikið upp á í samgöngumálum í nýja fjárlagafrumvarpinu

Vantar mikið upp á í samgöngumálum í nýja fjárlagafrumvarpinu

74
0
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir aukaframlög til Vegagerðarinnar langt frá því sem stefnt var að í samgönguáætlun. Verði fjárlagafrumvarpið sem kynnt var í morgun að veruleika vanti því mikið upp á til þess að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar vegaframkvæmdir.

„Ef við lítum á samanburðinn á þessu nýja frumvarpi og því sem lagt var fram fyrr í haust, þá er bætt við 1,5 milljarði í vegamálin og 200 milljónum í hafnarmálin. Þannig að það ber þó að þakka fyrir það sem bætist við, enda nóg af verkefnum sem bíða,“ segir Hreinn.

<>

En þið hefðuð viljað sjá meira?

„Já að sjálfsögðu er þetta ekki stór innspýting og langt frá því sem menn hafa verið að vænta eftir að síðasta samgönguáætlun var samþykkt í þinginu fyrir rúmu ári. Þetta er of langt frá því.“

Hreinn segir að framlög til viðhalds vega og þjónustu séu til að mynda ekki aukin. Aukafjárveitingin er eyrnamerkt ákveðnum verkefnum.

„Ég get nefnt gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar, það eru tvö verkefni á Reykjanesbraut í Hafnarfirði; við Kaplakrika og Lækjargötu, það má nefna Fróðárheiðina, og tvær einbreiðar brýr; Tjarnará á Vatnsnesi og Kvíá við Öræfajökul. Þetta eru þau verkefni sem ég hef í kollinum eins og er,“ segir Hreinn.

Heimild: Ruv.is