Home Fréttir Í fréttum Hafa efasemdir um borgarlínu

Hafa efasemdir um borgarlínu

152
0
Mynd: Mannvit
Trausti Valsson skipulagsfræðingur og Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur telja margt í tillögunum um borgarlínu byggja á veikum grunni. Með þeim áætlunum sem liggi fyrir sé mögulega verið að fara út í mjög vafasamt samgöngukerfi.

Trausti og Þórarinn sendu bæjarstjóranum í Hafnarfirði bréf sem var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðarbæjar í gær. Í bréfinu eru settar fram athugasemdir við áætlunina í átta liðum sem þeir telja að þurfi nánari athugunar við.

<>
Hagkvæmara er að nota sérstaka strætisvagna, nokkurs konar léttlestir á hjólum, á borgarlínunni en lestir. Þrefalt dýrara er að byggja lestarkerfi en hraðvagnakerfi en álika skilvirkt. Mynd: Reykjavíkurborg

Fyrst benda þeir á að gert sé ráð fyrir að stofnkostnaðurinn við að byggja sérakreinar og sérgötur fyrir hraðvagna verði 70 milljarðar til ársin 2040, eða 3 milljarðar á ári. Þetta sé sambærilegt við árlegar fjárveitingar til nýframkvæmda á þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugi. Hún hafi hins vegar verið mun minni síðustu 10 árin.

Einnig er bent á að ferðatíðni strætó tvöfaldist, sem þýði að fjöldi vagna í umferð tvöfaldist, auk þess sem hraðvagnar verði stærri. Þar með muni árlegur rekstrarhalli Strætó meira en tvöfaldast.

Trausti og Þórarinn lýsa miklum efasemdum yfir því að hlutfall einkabílsins minnki úr 76% í 58%  meðan hlutur strætó fari úr 4% í 12% eins og áætlanir geri ráð fyrir. Þetta sé ótrúverðug niðurstaða í ljósi þess að höfuðborgarsvæðið sé bílaborg. Þá hafi tilraunir til að auka þjónustu strætó aðeins leitt til lítillar fjölgunar farþega. Einnig sé mjög hæpið að hlutur gangandi og hjólandi vegfarendaaukist úr 20% í 30% á tímabilinu vega langra vegalengda og slæms veðurfars yfir vetrartímann.

Þá kemur fram í minnisblaðinu að þó að þessi fjölgun gangandi og hjólandi vegfarenda verði að veruleika minnki umferðin á fjölförnustu þjóðvegunum aðeins um örfá prósent. Ferðir gangandi og hjólandi sé mun styttri en ferðir með einkabíl og mest sé um þær á sumrin þegar bílaumferð sé minnst.

Þarf samt að fara í vegaframkvæmdir

Trausti og Þórarinn benda líka á að þrátt fyrir tilkomu borgarlínu þurfi að ráðast í nýframkvæmdir á þjóðvegum upp á 70-80 milljarða á þessu tímabili. Eru þar nefnd sem dæmi sundabraut, Reykjanesbraut í vegstokk milli Lækjargötu og Kaplakrika og ofanbyggðavegur milli Kaldárselsvegar og Arnarnesvegar, auk þess sem nefndar hafa verið þveranir yfir Fossvog og Skerjafjörð. Borgarlínan geti aðeins frestað ódýrum breikkunum á vissum köflum um nokkur ár.

Einnig er bent á að ekki sé tekið tillit til sjálfkeyrandi bíla og áhrifa þeirra á þróun umferðar og að borgarlínan kalli á kostnaðarsama stíga- og akreinagerð til að auðvelda aðgengi að biðstöðvum.

Trausti og Þórarinn segir í lokin að lokatillagan um borgarlínu sé ekki komin fram og hvergi verið samþykkt í stjórnum sveitarfélaga. Í ljósi þess telji þeir að athuga verði málið nánar og taka aðrar lausnir til athugunar.

Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðarbæjar vísaði erindinu til Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem svæðisskipulagið er í vinnslu.

Heimild: Ruv.is