Home Fréttir Í fréttum Sprenging hjá starfsmannaleigum á Íslandi

Sprenging hjá starfsmannaleigum á Íslandi

75
0

Mikil fjölgun hefur verið á starfsmönnum hjá starfsmannaleigum en á síðasta ári hefur fjöldinn meira en tvöfaldast.

<>

Starfsmannaleigan Íslensk verkmiðlun var stofnuð um mitt ár 2015 en á þeim tíma voru 23 starfsmenn á vegum starfsmannaleiga skráðir á Íslandi og leigurnar að- eins fjórar.

Íslensk verkmiðlun byrjaði smátt með aðeins þrjá á skrá en nú í dag eru starfsmenn á skrá á þriðja hundrað. Íslensk verkmiðlun er ekki eina starfsmannaleigan sem var stofnuð um þetta leyti en vaxið ört síðan þá.

Annað dæmi er Elja, sem var stofnuð árið 2015, og hefur nú um 500 manns á skrá hjá sér og Verkleigan sem var ekki stofnuð fyrr en 2016 og er nú með um 200 manns á skrá. Líkt og dæmin benda til hefur verið sprenging á markaðnum.

Í október 2017 voru 2.032 starfsmenn á skrá hjá 30 starfsmannaleigum á Íslandi. Fyrst fór að fjölga af alvöru árið 2016 eða um 800 manns en á síðastliðnu ári hefur fjölgunin verið rúmlega 1.000 sem er meira en tvöföldun milli ára.

Fleiri hjá starfsmannaleigum en fyrir hrun

Starfsmannaleigur voru umsvifamiklar í síðustu uppsveiflu. Miðað við ársreikninga Vinnumálastofnunar verður þó ekki betur séð en að umfang starfsmannaleiga sé umtalsvert meira nú heldur en í síðustu uppsveiflu þegar fjöldi starfsmanna fór mest upp í um 700 starfsmenn árið 2006.

Eftir hrun sofnaði geirinn nær alfarið og afar fáir voru á skrá hjá Vinnumálastofnun þar til á seinni hluta ársins 2015 að aftur fór að fjölga.

„Við sáum fram á að þarna væri að myndast tækifæri en umfangið er kannski annað mál. Það var ekki hægt að sjá fyrir hversu gríðarlega þessi geiri hefur vaxið,“ segir Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar verkmiðlunar, um aðdragandann að stofnun fyrirtækisins.

Heimild: Vb.is