Home Fréttir Í fréttum Sjö og hálfur milljarður í hús og viðgerðir

Sjö og hálfur milljarður í hús og viðgerðir

57
0
Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Heildarkostnaður Orkuveitunnar við að kaupa og gera við höfuðstöðvar fyrirtækisins verður um sjö og hálfur milljarður króna, sem er álíka og kostar að byggja nýjar höfuðstöðvar. Það er þó talinn hagkvæmasti kosturinn í stöðunni.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í vikunni að kaupa aftur höfuðstöðvar fyrirtækisins að Bæjarhálsi fyrir alls fimm og hálfan milljarð króna. Þær voru seldar fyrir fjórum árum sem hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu Orkuveitunnar en síðan þá hefur komið í ljós að stór hluti hússins er ónýtur vegna myglu. Viðgerð vegna þessa verður mjög kostnaðarsöm.

<>

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur sett saman minnisblað um söluna sem lagt var fyrir borgarráð í dag. Þar kemur fram að sú leið að kaupa höfuðstöðvarnar núna kosti Orkuveituna sjö og hálfan milljarð króna því auk kaupanna kosti tvo milljarða að gera við húsið. Þetta sé álíka og kosti að byggja nýjar höfuðstöðvar.

Önnur leið sem var skoðuð var málaferli við eigendur til að lækka leigugreiðslu – þau gætu kostað sex til átta milljarða. Sú leið væri mjög áhættusöm, meðal annars vegna óvissu um niðurstöðu slíkra málaferla. Aðrar leiðir, sem fólu í sér að gera ekkert og kaupa húsið eftir sex eða sextán ár eins og kaupsamningurinn gerði ráð fyrir, eða flytja úr húsinu eftir sextán ár, myndu kosta frá átta til ellefu milljörðum króna. Því væri hagkvæmast að fara að tillögu stjórnar Orkuveitunnar og kaupa húsið aftur.

Akranes og Borgarbyggð samþykktu í dag að Orkuveitan keypti höfuðstöðvarnar. Borgarráð frestaði hins vegar afgreiðslu málsins um viku og sagði Björn Blöndal formaður borgarráðs að menn vildu fá lengri tíma til að skoða málið. Til stóð að afgreiða söluna á eigendafundi á morgun, en af því verður ekki vegna frestunar borgarráðs á afgreiðslu málsins.

Heimild: Ruv.is