Home Fréttir Í fréttum Langþráð hjúkrunarheimili á áætlun á Höfn

Langþráð hjúkrunarheimili á áætlun á Höfn

145
0
Hornafjörður
Framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Hornafirði fagnar því að loksins eigi að byggja hjúkrunarrými á staðnum en aldrað fólk á Hornafirði hefur þurft að verja ævikvöldinu við þröngan kost tvö saman á herbergi. Nýverið var 155 hjúkrunarrýmum bætt við á framkvæmdaáætlun til ársins 2022.

Fyrir voru 313 rými á framkvæmdastigi ýmist til fjölgunar eða til að bæta aðbúnað. Á vef Velferðarráðuneytisins segir að áætlaður kostnaður við 155 hjúkrunarrými til viðbótar sé tæpir fimm milljarðar króna en miðað er við að sveitarfélög á hverjum stað greiði 15% af framkvæmdakostnaði. Áformin taki mið af því sem úr er að spila í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins og byggi á mati á því hvar þörfin sé mest. Rýmum verður fjölgað um 80 á höfuðborgarsvæðinu og 10 í Árborg. Byggð verða 23 rými á Húsavík,18 rými endurgerð í Stykkishólmi og 24 á Höfn í Hornafirði.

<>

„Við erum náttúrulega himinlifandi yfir þessum fréttum en hér er verið að laga aðbúnað það er ekki verið að fjölga rýmum miðað við þessa áætlun. Það hefur vantað algjörlega öll stoðrými, það hefur ekki verið sjúkraþjálfun innanhúss og ekki verið starfsemi fyrir einhverskonar iðju ásamt því að allir einstaklingar hjúkrunarheimilisins fyrir utan tvo hafa þurft að deila rými með öðrum. Þetta verður náttúrulega bylting fyrir þá einstaklinga því að þetta verða allt einbýli með sér baðherbergi. Það er það sem við höfum verið að berjast fyrir öll þessi ár. Mannréttindi hafa í raun verið brotin á þessum íbúum heimilisins þó svo að það hafi farið vel um alla,“ segir Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Hornafirði.

Samkvæmt könnun sem gerð var á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi hafi komið fram að helmingur hjúkrunartvíbýla á Suðurlandi væri á Höfn. Hornfirðingar hafi óskað eftir fundi með Velferðarráðuneytinu og vilji hefjast handa strax. „Við vitum að það er búið að áætla einhverja fjárhæð í verkið nú þegar á þessu ári og við viljum fá að nýta það strax. Þannig að við bíðum bara eftir svörum frá ráðuneytinu um að það verði undirritaðir samningar hið fyrsta um framkvæmdina,“ segir Matthildur.

Heimild: Ruv.is