Home Fréttir Í fréttum Orkuveitan kaupir aftur skemmdar höfuðstöðvar

Orkuveitan kaupir aftur skemmdar höfuðstöðvar

157
0
Mynd: Vísir/Vilhelm

Gengið hefur verið frá kaupum Orkuveitu Reykjavíkur á höfuðstöðvum sínum við Bæjarháls af fasteignafélaginu Fossi. Foss keypti húsin árið 2013 og hefur Orkuveitan leigt þau síðan. Með í kaupunum er vesturhús höfuðstöðvanna sem er stórskemmt af völdum raka.

<>

Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur kemur fram að fyrirtækið og eigendur húsanna hafi saman leitað bestu lausna eftir að skemmdirnar komu í ljós. Vesturhúsið hafi staðið autt um nokkurra mánaða skeið.

Það hafi verið OR sem óskaði eftir viðræðum við Foss um lausn á vandanum. Niðurstaða viðræðna varð sú að OR kaupir allt hlutafé fasteignafélagsins á 1,4 milljarða króna og tekur yfir lán sem á félaginu hvíla sem nema 4,1 milljarði. OR hyggst endurfjármagna þau með útgáfu skuldabréfa. Gert var ráð fyrir útgjöldum vegna þessa í fjárhagsáætlun OR sem var samþykkt í stjórn 20. Október.

„OR mun eftir sem áður standa vörð um hagsmuni fyrirtækisins gagnvart þeim sem að húsbyggingunni komu með tilliti til hugsanlegra bóta,” segir í tilkynningunni.

Nokkrir lífeyrissjóðir og fjárfestingarsjóðir stofnuðu Foss á sínum tíma. OR seldi húsin til félagsins fyrir 5,1 milljarð króna árið 2013 í tengslum við Planið, áætlun um að leysa úr vanda fyrirtækisins. Á þeim tíma þurfti OR að greiða tugi milljarða króna af lánum og skorti lausafé.

Í tilkynningunni segir að söluandvirðið hafi verið lagt í varasjóð á sínum tíma. Vaxtatekjur OR af því sé rúmlega 330 milljónum umfram leigugreiðslurnar til Foss.

Heimild: Visir.is