Home Fréttir Í fréttum Ný viðbygging Sundhallar Reykjavíkur opnuð þann 3. desember nk.

Ný viðbygging Sundhallar Reykjavíkur opnuð þann 3. desember nk.

337
0
Nýja útisvæðið séð að ofan. Á hægri hönd er nýi inngangurinn á efri hæð og kvennaklefinn á þeirri neðri. Útilklefarnir eru í löngu álmunni vinstra megin á myndinni. Mynd: VÍSIR/ANTON BRINK

Þann 3. desember má reikna með fjölmenni í Sundhöll Reykjavíkur þegar ný útisundlaug verður vígð. Ókeypis verður fyrir gesti í sundlaugina þann daginn en daginn fer starfsemin af stað samkvæmt áætlun.

<>

Blaðamaður og ljósmyndari Vísis fengu að fara í skoðunarferð um nýju húsakynnin í morgun. Vatn er komið í útilaugina og pottana sömuleiðis. Raunar er nýja mannvirkið svo til tilbúið. Viðgerð stendur yfir á gamla karlaklefanum en tvær og hálf vika er til stefnu fram að opnun.

Nýja afgreiðslan í Sundhöllina. Þar fyrir aftan er aðstaða fyrir starfsfólk. Á neðri hæðinni er kvennaklefinn og klefar fyrir starfsfólk. VÍSIR/ANTON BRINK

Sundhöll Reykjavíkur  við Barónstíg var tekin í notkun árið 1937 en arkitektinn var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins. Sundhöllin fagnar því 80 ára afmæli sínu á árinu. Þegar sundhöllin var opnuð var aðeins klefi fyrir karla á efri hæð. Tveimur árum síðar var geymslum á neðri hæð breytt í búningsklefa fyrir konur sem gátu þá sömuleiðis farið í sund.

Búningklefar kvenna færast yfir í nýju bygginguna en karlarnir verða áfram í gömlu byggingunni. Til viðbótar eru útiklefar fyrir bæði kyn. Vaðpottur (38°C), heitur pottur (40°C) og kaldur pottur eru umhverfis útilaugina sem er með fjórum brautum. Hiti er í jörðu á bökkum laugarinnar til að bræða frost og snjó.

Þá er gufubað við útiklefana en gufubaðið sem var við útipottana í gömlu lauginni verður breytt í þurrgufu (saunu). 

Úr kvennaklefanum í nýbyggingunni. Karlarnir verða áfram í sömu klefum sem verið er að gera við þessa dagana.VÍSIR/ANTON BRINK

Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er talinn um 1,6 milljarður króna. Ístak er aðalverktaki við framkvæmdirnar. Unnið var eftir vinningstillögu VA arkitekta sem urðu hlutskarpastir í hönnunarsamkeppni um útisvæðið.

Forstöðumaðurinn Logi Friðfinnsson segir aðstandendur hvað stoltasta af aðgengi við fatlaða sem verði gríðarlega gott með sérstökum klefum og lyftum í húsnæðinu og ofan í laugina.

Breytingar, stækkun og aukinn þjónustutími, hafa í för með sér að starfsfólki fjölgar nokkuð en aðstaða starfsfólks verður allt önnur og betri en verið hefur. Logi segir að fjölgað verði um tvo starfsmenn á hverri vakt auk þess sem átján ungmenni kom að störfum í hlutastarfi um helgar.

Úr vaktturninum þar sem sundlaugaverðir hafa aðstöðu.VÍSIR/ANTON BRINK

Nándin við miðbæinn gæti gert það að verkum að ferðamenn muni streyma í laugina. Logi segir starfsfólkið búa sig undir mikla aðstókn.

„Það er mikið um gististaði í nágrenninu og svo er mikil íbúabyggð í kring í göngufæri.“

Sundhöllin verður með sama opnunartíma og Laugardalslaugin, þ.e. frá 6:30-22 á virkum dögum og frá 8-22 um helgar.

Kaldi potturinn sem var um 10°C þegar blaðamaður kom við í dag. Auðvelt er að stjórna hitastiginu og hægt að breyta honum í heitan pott með léttum hætti.VÍSIR/ANTON BRINK

Nánar um hönnun laugarinnar
Lögð var áhersla á að form og fyrirkomulag viðbyggingarinnar tæki mið af þessu þannig að aðalbyggingin nyti sín sem best um leið og til yrði samstæð heild. Laugargólf nýs útisvæðis er hæð neðar en aðkoma frá Barónsstíg, með þessu móti er suðurhlið aðalbyggingar að mestu óbreytt og verður vel sýnileg frá götunni vegna þess hve langhliðar nýbyggingar eru gagnsæjar. Léttleiki var í fyrirrúmi við mótun viðbyggingar og hæð og hlutföll, bæði flata og glugga, laga sig að eldri lágbyggingu.

Gengið er inn í nýjan afgreiðslusal frá Barónsstíg. Úr salnum má njóta útsýnis yfir laugasvæði. Aðkoma að núverandi búningsklefum karla er um tengibyggingu en nýir búningsklefar kvenna og búningsherbergi fatlaðra koma á neðri hæð viðbyggingar. Útiklefar og eimbað koma í lágbyggingu meðfram suðurlóðarmörkum.

Frambygging og lágbygging meðfram suðurlóðarmörkum mynda ásamt eldri byggingu og veggjum skjólgott laugasvæði. Á útisvæði koma fjögurra brauta, 25 metra löng útilaug, vaðlaug fyrir börn og tveir heitir pottar, sá stærri undir suðurhlið þar sem sólar nýtur yfir daginn.