Home Fréttir Í fréttum Tólfhundruð manna byggð mun rísa á svökölluðum Kringlureit á næstu árum

Tólfhundruð manna byggð mun rísa á svökölluðum Kringlureit á næstu árum

158
0
Skjáskot af Ruv.is Mynd: Kanon arkitektar
Tólfhundruð manna byggð mun rísa á svökölluðum Kringlureit á næstu árum. Þá verður Kringlan sjálf stækkuð um 30 þúsund fermetra og flestum bílastæðum verður komið fyrir neðanjarðar. Vinningstillaga að nýju skipulagi var kynnt síðdegis í dag.

Svæðið afmarkast af Kringlumýrarbraut, Miklubraut, og Listabraut og verður kallað Kringlumýri. Vinningstillöguna áttu Kanon arkitektar. Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar segir vinningstillöguna gera ráð fyrir að breyta Kringlusvæðinu í borgarhverfi.

<>

„Þetta er í takt við þá meginstefnu að nýta betur það verðmæta land sem til er innan borgarmarkanna og byggja á þessum lykilstað inni í borginni.“

Á svæðinu verða reistar 400-600 íbúðir svo þar getur orðið um 1200 manna byggð þegar fram í sækir en hvefið verður byggt upp í áföngum. Helga Bragadóttir arkitekt hjá Kanon arkitektum sem áttu vinningstillöguna segir að með henni sé reynt að opna verslunarmiðstöðina sem fyrir er á svæðinu og byggja meðfram henni.

„Við bætum 30 þúsund fermetrum við hana. Svo erum við með torg, göturými, götur og byggingar uppá 4-6 hæðir þar sem að verða lifandi og virkar jarðhæðir með alls kyns starfsemi og íbúðir á efri hæðum. Gangandi og hjólandi er gert mjög hátt undir höfði. “

Hjámar segir að fólk sem þarna muni búa muni eiga stutt í alla mögulega og ómögulega þjónustu. Það sé stutt í verslanir, í leikhús og allar samgönguæðar. Þá muni Borgarlínan þjónusta þessi nýju svæði.

En þolir gatnakerfið eins og það er í dag þessa nýju byggð ásamt nýjum Landspítala við Hringbraut án þess að Borgarlínan sé komin?

„Ég tel það hæpið, gatnakerfið þolir ekki mikið meir af óbreyttu ástandi,“ segir Hjálmar. „Þess vegna verður að efla almenningssamgöngur og þetta þarf í rauninni að gerast samtímis. Forsendan fyrir öflugu almenningssamgöngukerfi er þétt byggð. Svo að þessi nýja byggð mun hjálpa Borgarlínunni að verða að veruleika. Þannig að svarið er jú, þetta þarf að gerast samtímis þannig að það kemur samtímis, bæði eggið og hænan.“

Heimild: Ruv.is