Home Fréttir Í fréttum Bygging gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri er fyrirhuguð

Bygging gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri er fyrirhuguð

295
0
Samsett mynd. Mynd: Arkís arkitektar

Bygging gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri er í áætlunargerð, en samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð skal starfrækja starfsstöðvar þjóðgarðsins á sex stöðum, þar með töldu Kirkjubæjarklaustri. Byggingin verður starfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði hans með aðstöðu á aðalhæð fyrir upplýsingagjöf, sýningarhald, verslun, kaffihús, skrifstofu- og starfsmannaaðstöðu, geymslu og tæknirými í kjallara.

<>
Myndir: Arkís arkitektar

Byggingin verður 620 m2 á einni hæð, auk 145 m2 kjallara eða samtals 765 m2. Áætluð verklok eru 2019. Byggingin er hönnuð þannig að hún falli vel að og inn í landið og verði hluti af hólóttu landslagi lóðarinnar við Sönghól. Þak byggingarinnar er lagt með úthagatorfi af lóðinni. Hægt verður að ganga upp á þak byggingarinnar og verður gönguleið á þakinu lögð með grassteini. Frá þakinu verður hægt að horfa yfir Kirkjubæjarklaustur, Landbrotið, Systrastapa, Skaftá, Síðuna, Núpana og yfir á Öræfajökul og ná þannig sjónrænni tengingu við Vatnajökulsþjóðgarð.

Aðkomutorgið við aðalinnganginn er einn af upplýsingarmiðlunarstöðunum þar sem landmótun er formuð með uppbyggðum pöldrum þar sem gestir geta tyllt sér á við fyrirlestra um svæðið og Vatnajökulsþjóðgarð. Aðkomutorgið tengist yfirbyggðri verönd fyrir útiveitingaaðstöðuna með yfirsýn yfir Skaftá, Síðuna, Núpana og Öræfajökul til austurs. Aðkoma að kjallara er um braut sem er samsíða aðkomu gangandi að aðkomutorginu og aðalinngangi hússins.

Allt timbur utanhúss er frá Suðurlandsskógum (Kirkjubæjarklaustri). Byggingin er hönnuð á grundvelli algildrar hönnunar. Hún verður hituð upp með orku frá vatni í vatn varmadælu. Byggingin er hönnuð og byggð í samræmi við alþjóðlega umhverfisvottunarkerfið BREEAM.

  • Verkkaupi er umhverfis- og auðlindaráðuneytið en Vatnajökulsþjóðgarður mun sjá um daglegan rekstur gestastofunnar.
  • Framkvæmdasýslan fer með umsjón og eftirlit með verkefninu. Verkefnastjóri er Pétur Bolli Jóhannesson.
  • Arkís arkitektar ehf. ásamt hönnunarteymi sjá um hönnun gestastofunnar.

Heimild: Fsr.is