Home Fréttir Í fréttum 40 íbúðir af 71 við Efstaleiti seldar

40 íbúðir af 71 við Efstaleiti seldar

228
0
Fjörutíu íbúðir af sjötíu og einni við Efstaleiti hafa selst á tiltölulega skömmum tíma. Einn keypti heila byggingu með átján íbúðum. Íbúðalánasjóður telur að ró sé að færast yfir markaðinn, þótt ólíklegt sé að verð lækki.

Miklar framkvæmdir standa yfir á lóð Útvarpshússins við Efstaleiti, en þar er samtals verið að byggja um 360 íbúðir. Fjórar byggingar á sunnanverðri lóðinni eru langt komnar, en í þeim verður samtals 71 íbúð. Formlegt söluferli hófst fyrir rúmri viku og Hilmar Ágústsson, framkvæmdastjóri Skugga, sem reisir íbúðirnar, segir að salan hafi gengið betur en búist hafði verið við.

<>

Á rétt rúmri viku hafi 12 íbúðir verið seldar, en samtals sé búið að selja um 40 íbúðir af sjötíu og einni. Verðið sé á bilinu 45 til 100 milljónir. Hilmar segir að einn og sami aðilinn hafi keypt allar íbúðirnar í austustu byggingunni, alls 18 íbúðir. Stefnt er að því að íbúar flytji inn næsta vor. Norðanmegin á lóðinni er Skuggi svo að reisa 290 íbúðir til viðbótar, sem verða að jafnaði minni og ódýrari. Þær framkvæmdir eru skemur á veg komnar.

Lækkun í Vesturbænum og Neðra-Breiðholti

Íbúðalánasjóður kynnti í morgun mánaðarlega skýrslu sína um stöðuna á fasteignamarkaði. Þar kemur fram að aukin ró sé að færast yfir markaðinn, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu.

„Síðasta vetur voru hækkanir fasteignaverðs hér á höfuðborgarsvæðinu langt umfram langtímameðaltal. Íbúðir voru í auknum mæli að fara á yfirverði, svo dæmi sé tekið. En þetta hefur breyst og allra síðustu mánuði hefur íbúðaverð hækkað nokkurn veginn í takt við langtímameðaltal og laun svo dæmi séu tekin. Og hlutfall íbúða sem eru að fara á yfirverði er aftur orðið sambærilegt við það sem það hefur verið síðustu þrjú árin,“ segir Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs.

Í sumum hverfum höfuðborgarsvæðisins hefur verð lækkað undanfarna mánuði, en það gerist í kjölfar mikilla hækkana á fyrstu mánuðum ársins.

„Þetta eru örlitlar lækkanir, meðal annars í Vesturbæ og Neðra-Breiðholti. Þetta er ekkert til þess að hafa miklar áhyggjur af. Í öðrum hverfum á höfuðborgarsvæðinu hefur verð hækkað á sama tíma. Þannig að við þurfum bara að halda áfram að fylgjast með þessu,“ segir Ólafur.

Þættir á borð við laun, vaxtastig og framboð hafi mest áhrif á hvernig fasteignaverð muni þróast næstu misserin.

En þið spáið áframhaldandi hækkunum á fasteignaverði?

„Við höfum talað um að það sé ólíklegt að fasteignaverð fari lækkandi, allavega allra næstu misserin,“ segir Ólafur.
Heimild: Ruv.is