Home Fréttir Í fréttum Yfir 300 milljarðar í framkvæmdir

Yfir 300 milljarðar í framkvæmdir

48
0

Stór fjárfestingarverkefni eru í burðarliðnum hjá hinu opinbera næstu árin, en samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins er áætlaður heildarkostnaður þeirra yfir 300 milljarðar króna. Stærstu verkefnin eru nýr Landspítali og Borgarlínan.

<>

Opinber fjárfesting hefur verið með minnsta móti undanfarin ár og deilir enginn um það að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum landsins sé gríðarleg.

Hafa Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafaverkfræðinga þannig áætlað að fjárfestingarþörfin nemi 372 milljörðum króna. Það eru þó margar áskoranir sem bíða yfirvalda næstu misseri.

Á sama tíma og þverpólitísk sátt ríkir um það að vinna þurfi niður uppsafnaða þörf fyrir uppbyggingu innviða – sem ríkið ræður ekki við eitt og sér – vegst fjárfestingarþörfin á við háan vaxtakostnað og hagsmunina af því að greiða niður skuldir ríkissjóðs annars vegar og spennu í hagkerfinu hins vegar.

Eftir nokkur mögur ár í opinberum framkvæmdum eru þó stór fjárfestingarverkefni í burðarliðnum hjá hinu opinbera. Viðskiptablaðið tók saman tölur um fyrirhugaðar fjárfestingar hins opinbera vegna stórra framkvæmda næstu árin, en með opinberum framkvæmdum er átt við gerð, viðhald eða breytingar á mannvirkjum á vegum ríkissjóðs, sveitarfélaga eða ríkisfyrirtækja. Áætlaður heildarkostnaður við stærstu framkvæmdirnar næstu þrjú til fjögur árin nemur yfir 300 milljörðum króna.

 

Rétt er að slá varnagla við samantektinni. Upplýsingar um opinberar framkvæmdir eru á víð og dreif í áætlunum, kynningum og skýrslum og ekki aðgengilegar á einum stað. Taflan hér að ofan er því líklega ekki tæmandi og er um nokkuð grófa nálgun að ræða þar sem vikmörkin geta verið víð.

Þá eru framkvæmdir á nokkrum verkefnum hafnar og í þeim tilfellum hefur kostnaður þegar fallið til. Einnig þarf að hafa í huga að raunverulegur kostnaður getur verið verulega frábrugðinn áætluðum kostnaði, auk þess sem í nokkrum tilfellum á eftir að veita ýmis leyfi, samþykkja framkvæmdir og tryggja fjármögnun. Áherslur í opinberum framkvæmdum og fjárfestingastigið gætu svo breyst þegar ný ríkisstjórn tekur við.

Til lengri tíma litið hafa einnig verið skilgreind verkefni á borð við virkjanaframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar og ný 4,5 milljarða króna brú yfir Ölfusá, og hugmyndir reifaðar um framkvæmdir á borð við fluglest (um 100 milljarðar), lagningu Sundabrautar (40-100 milljarðar), ný Hvalfjarðargöng (15 milljarðar) og nýjan þjóðarleikvang (5-8 milljarðar). Í mörgum þessara tilfella ríkir þó óvissa um tilhlutun ríkisins og einkaaðila í fjármögnun.

Nýr Landspítali og Borgarlína stærstu verkefnin

Helstu framkvæmdir ríkissjóðs milli 2017 og 2019 munu kosta 40 milljarða króna, samkvæmt mannvirkjaáætlun ríkisins. Fram til ársins 2021 nemur fjárhæðin tæplega 68 milljörðum króna.

Ekki er tekið tillit til vegaframkvæmda eða framkvæmda opinberra hlutafélaga í þeirri áætlun. Uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut er langveigamesta framkvæmd ríkisins næstu árin, en ráðgert er að hann muni kosta 54 milljarða.

Borgarlínan er stærsta sameiginlega skipulagsverkefni sveitarfélaga næstu árin. Hún mun tengja kjarna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og verða allt að 57 kílómetrar að lengd. Verkefnið er áfangaskipt, en áætlaður kostnaður við fyrsta áfangann, sem stefnt er að því að klára árið 2022, nemur 25 milljörð­um króna. Áætlað er að klára verkefnið árið 2040 og nemur áætlaður heildarkostnaður borgarlínunnar um 73 milljörðum króna. Ekki er búið að tryggja fjármögnun fyrir verkefnið og er aðkoma ríkisins að framkvæmdinni því óljós.

Heimild: Viðskiptablaðið