Home Fréttir Í fréttum NLFÍ vill reisa 5 stjörnu heilsulind í Hveragerði

NLFÍ vill reisa 5 stjörnu heilsulind í Hveragerði

259
0
Mynd: hveragerdi.is
Náttúrulækningafélag Íslands, sem rekur Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, hefur óskað eftir samstarfi við bæjaryfirvöld um gerð deiliskipulags á tveimur lóðum sem félagið á við Grænamörk og Þelamörk. Félagið vill skipuleggja íbúðabyggð syðst og nyrst á þessum lóðum til að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu en það hefur meðal annars áhuga á að reisa nýja hágæða heilsulind „sem verði að minnsta kosti á borð við 4-5 stjörnu hótel.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi Náttúrulækningafélagsins, NLFÍ, til Hveragerðisbæjar sem er dagsett 4. október.

<>

Félagið nefnir meðal annars að áhöld sé um hvort réttlætanlegt sé að leggja í meiriháttar viðhald í Heilsustofnunina. Hún sé nú rekin í um 15 þúsund fermetra húsnæði sem sé orðið gamalt og endurbætur nauðsynlegar til að það fullnægi nútíma kröfum með eðlilegu rekstraröryggi.

NLFÍ hafi því sett stefnuna á að byggja nýja gistiálmu og nýtt meðferðarhúsnæði fyrir sjúkraþjálfun, nudd og læknisþjónustu. Þessi nýju hús eiga að koma í stað eldra húsnæðis. Félagið tekur þó fram að það hafi ekki tök á því að taka við fleiri dvalargestum af rekstrarlegum ástæðum.

Þá kemur fram í bréfinu að NLFÍ hafi um nokkurra ára skeið unnið að markaðsgreiningu og þróun á nýrri hágæða heilsulind. Hún myndi bjóða upp á heilsueflingar-og vellíðunarþjónustu í gistirými og þjónustuaðstöðu „sem verði amk á borð við 4-5 stjörnu hótel.“

Þessari hágæða heilsulind væri ætlað að skjóta styrkari stoðum undir rekstur Heilsustofnunarinnar til framtíðar og gæti auk þess orðið mikilvægur hluti af heilsueflingarstarfsemi í Hveragerði.

Heimild: Ruv.is