Home Fréttir Í fréttum „Eins og rússnesk rúlletta að komast í vinnu“

„Eins og rússnesk rúlletta að komast í vinnu“

107
0
Mynd: Olga Björt Þórðardóttir
Það er eins og rússnesk rúlletta að komast í vinnu eða skóla á morgnanna, segir íbúi í Hafnarfirði sem hélt erindi á íbúafundi sem bæjaryfirvöld boðuðu til í kvöld til að knýja á um úrbætur í samgöngumálum, með áherslu á Reykjanesbrautina.

Gatnamótin og hringtorgin frá Kaplakrika að Lækjargötu eru með eina hæstu slysatíðni á höfuðborgarsvæðinu, og þá hafa orðið mörg alvarleg slys á einfalda kafla Reykjanesbrautarinnar, frá kirkjugarði suður fyrir Straumsvík. Til að knýja á um úrbætur boðaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar til íbúafundar um samgöngumál í Bæjarbíói í kvöld.

<>

„Við leggjum áherslu á að það verði haldið áfram, og við fáum fjármuni á næsta ári til að ljúka að minnsta kosti við tvöföldun Reykjanesbrautar, frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi ásamt því að ljúka framkvæmdum við tvö hringtorg sem er mikil slysahætta af,“ Segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, í samtali við fréttastofu. Hann segir þungt hljóð í bæjarbúum. „Þetta er ríkisframkvæmd og ríkið ber ábyrgð á þessu og gerum nú kröfu um að þessu verði lokið á allra næstu árum.“

„Þetta bara gengur ekki upp“

Á meðal þeirra sem héldu erindi á fundinum voru Sindri Blær Gunnarsson, nemi í Flensborgarskóla sem slasaðist í hörðum árekstri á Reykjanesbraut, og Hrafnhildur R. Halldórsdóttir, íbúi í Setbergi, en fyrirlestur hennar bar yfirskriftina: „Ófremdarástand.“

„Það er náttúrulega eins og rússnesk rúlletta að komast í vinnu eða skóla á morgnana,“ segir Hrafnhildur í samtali við fréttastofu. „Og menn eru farnir að stytta sér leiðir, bæði í gegnum Setbergið sjálft og síðan flæðir þetta líka út á Strandgötuna og aðrar æðar sem eru þarna í kring. Börn eru að hjóla þarna og ganga, og þetta bara gengur ekki upp, þegar menn eru að koma þarna í gegn á sextíu kílómetra hraða.“

Óvissa um frekari framkvæmdir

Framkvæmdir eru hafnar við mislæg gatnamót Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar, en að sögn Magnúsar Einarssonar, deildarstjóra framkvæmda hjá Vegagerðinni, sem talaði á fundinum í kvöld, ríkir óvissa um framhaldið.

„Gildandi vegaáætlun, gildir til fjögurra ára, til 2018, og á þeirri áætlun þá er veitt fé til mislægra vegamóta við Krýsvíkurvegamót, og það er það sem við sjáum í kortunum akkúrat núna,“ sagði Magnús í samtali við fréttastofu í kvöld. „Það ræðst algjörlega af Alþingi hvernig það (framhaldið) horfir til næstu fjögurra ára.“

Heimild: Ruv.is