Home Fréttir Í fréttum Norðmenn hefðu varla samþykkt gangagerðina

Norðmenn hefðu varla samþykkt gangagerðina

326
0
Vaðlaheiðargöng
Nær engar líkur eru á því að norska þingið hefði samþykkt þátttöku norska ríkisins í gerð ganga eins og Vaðlaheiðarganga, ef undirbúningur þeirra hefði farið fram samkvæmt norskum stjórnsýslureglum og viðmiðunum. Þetta segir lektor við Háskólann í Reykjavík.

Doktor Þórður Víkingur Friðgeirsson er verkfræðingur og hefur rannsakað stjórnsýslu hins opinberra við stórar framkvæmdir. Hann hefur sýnt fram á að kostnaður við opinberar framkvæmdir fer að meðaltali um sextíu prósent fram úr áætlunum hér á landi. Hann mátaði undirbúning Vaðlaheiðarganga við norska verkferla og segir að 40 prósent rannsókna og athugana hafi vantað.

<>

 

„Norðmenn hafa dregið upp ítarlegar kröfur sem við getum kallað lágmarksviðmið um það hvernig er staðið að undirbúningi, mati á áhættu, þjóðhagslegri hagkvæmni, kostnaði og heilt yfir það sem við köllum hagkvæmniathugun. Og slíkar kröfur eru ekki í þeim mæli og alls ekki jafnítarlega hér á landi eins og þar,“ segir Þórður Víkingur.

Lögin um svona framkvæmdir eru þó svipuð í Noregi og hér á landi. „En það eru hinsvegar þessi tæknilegu viðmið sem eru gefin út af fjármálaráðuneytum þessara landa sem eru miklu ítarlegri í Noregi en á Íslandi.“

Þórður minnir á að formaður samgöngunefndar Alþingis hafi varað við gerð ganganna á grundvelli skýrslu þar sem kostnaður var talinn stórlega vanáætlaður. Meirihluti fjárlaganefndar hafi hinsvegar stutt hana eins og þáverandi fjármálaráðherra, fyrsti þingmaður kjördæmisins. Þórður Víkingur segir að hér á landi búi stjórnmálamenn við mikinn freistnivanda. „Freistnivandi getur birst í þeirri mynd að ef umhverfið er óljóst, leikreglurnar óskýrar þá getur það gerst að þingmönnum veitist það léttara að koma gæluverkefnum sínum á framfæri vegna þess að það er ekkert viðnám er í stjórnsýslunni sjálfri. Og var það þannig í þessu tilviki? Ég ætla ekkert um það að segja en það verður hver að dæma um það fyrir sig.“

Heimild: Rúv.is