Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir æra íbúa við Bríetartún

Framkvæmdir æra íbúa við Bríetartún

209
0
FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

„Það er ekki verandi þarna inni,“ sagði Kristín E. Sigurðardóttir, íbúi við Bríetartún í Reykjavík.

<>

Umfangsmiklar framkvæmdir fara fram við götuna beint á móti íbúð Kristínar. Þar á tólf hæða íbúðaturn að rísa en undir turninum er gert ráð fyrir bílastæðakjallara.

Jarðvegsframkvæmdir á lóðinni eru að gera Kristínu lífið leitt.

„Frá klukkan átta til fimm eru þeir að bora með fleygnum og frá klukkan fimm til sjö eftirmiðdegis eru þeir að sprengja með tilheyrandi viðvörunarhljóðum,“ sagði Kristín sem fer reglulega til dóttur sinnar til að forðast hávaðann.

„Ég reyni að koma mér út úr húsi fyrir átta áður en þetta hefst allt saman. Ég hef reynt að nota eyrnatappa, en ekkert virkar. Þetta reynir nokkuð á taugarnar,“ sagði Kristín sem er komin á níræðisaldur.

„Það er ekki hægt að lesa eða hlusta á útvarpið fyrir þessu. Lætin eru eins og í Úkraínu eða Afganistan, öllum þessum stríðshrjáðu löndum. Ég er komin með höfuðkrampa yfir þessu,“ sagði hún.Kristín er í íbúð frá Félagsbústöðum en hún segir að þrátt fyrir ólætin hafi ekkert tjón orðið á íbúðinni.

„Fleygvinna og sprengivinna er alltaf mjög hvimleið,“ sagði Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, sem fer með jarðvegsframkvæmdir við Bríetartún.

„Þegar verið er að þétta byggðina svona mikið og reisa svona háhýsi eins og á sumum stöðum í Reykjavík verður að fara í svona framkvæmdir. Sprengivinna hefst oftast um fimmleytið á daginn og við reynum að halda öllu í góðum málum. En það er alltaf eitthvað um kvartanir,“ segir hann.

„Það fylgir sögunni að gera þetta svona og það fer ekki fram hjá neinum. Við förum eftir öllum reglum og gerum sem flest til að minnka áhrifin af þessu,“ sagði Dofri en hann gerir ráð fyrir að jarðvegsframkvæmdum verði lokið í lok maí eða byrjun júní ef ekkert óvænt kemur upp á.

Heimild: Vísir.is