Home Fréttir Í fréttum Ástand Perlunnar er verra en búist hafði verið við

Ástand Perlunnar er verra en búist hafði verið við

86
0
Mynd: rúv
Ástand Perlunnar er verra en búist hafði verið við og mun kostnaður Reykjavíkurborgar vegna lagfæringa, eldvarnarmála og breytinga hússins hækka um 100 milljónir eða úr 230 milljónum í 330 milljónir.
Þá heimilaði borgarráð í gær að ráðast í byggingu viðbyggingar við Perluna. Fyrstu áætlanir ráð fyrir að viðbyggingin kosti 350 milljónir, hún verður að mestu neðanjarðar, tengd aðalbyggingu með glerbyggingu og mun hýsa stjörnuver.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.

<>

Í greinargerð frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sem lögð var fram á fundi borgarráðs, kemur fram að upphafleg áætlun hafi gert ráð fyrir að stjörnuverið yrði á milligólfi en á framkvæmdatíma hafi komið í ljós að það var ekki hægt.

Þá hafi verið lögð drög að nýju mannvirki norðan við Perluna sem verður að mestu neðanjarðar. Byggingin verður 850 fermetrar, teiknuð af arkitekt hússins og gera fyrstu áætlanir ráð fyrir að kostnaður vegna hennar verði í kringum 350 milljónir.

Í greinargerðinni kemur fram að byggingin verði fjármögnuð af Reykjavíkurborg. Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar segir að tekjur af þessari nýju byggingu verði um 24 milljónir á ári og því muni fjárfestingin hafa skilað sér aftur á 15 árum.  Perla norðursins, sem hefur Perluna á leigu, mun leggja til 350 milljónir í búnað og lausafé tengt stjörnuverinu.

Í greinargerðinni segir jafnframt að Perlan hafi verið mun verr farin en ætlað hafði verið. Kostnaður vegna lagfæringa, eldvarnarmála og breytinga hússins mun því hækka um 100 milljónir eða úr 230 milljónum í 330 milljónum.

Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar segir þetta gera það að verkum að fjárfestingin í Perlunni mun skila sér að fullu um mitt ár 2035 en ekki á árinu 2034 eins og fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.

Reykjavíkurborg leigir Perluna til Perlu norðursins fyrir um 150 milljónir króna á ári þegar framkvæmdum vegna nýrrar náttúrusýningar er lokið. Leigusamningurinn er til 25 ára en hann rennur út 1. október 2042.

Heimild: Ruv.is