Home Fréttir Í fréttum Munck aftur með brotlegan undirverktaka

Munck aftur með brotlegan undirverktaka

116
0
Mynd: Ruv.is
Íslenskt verktakafyrirtæki, Munck á Íslandi, hefur ekki fengið neinar upplýsingar frá pólskum undirverktaka sem starfaði við Þeystareykjavirkjun í fyrra og grunaður er um að hafa greitt starfsmönnum sínum lægri laun en kjarasamningar gera ráð fyrir. Þetta er í annað sinn sem Munck þarf að bregðast við samningsbroti undirverktaka síns, ef rétt reynist.

Morgunblaðið sagði frá málinu í morgun. Þar var haft eftir Aðalsteini Á. Baldurssyni, formanni stéttarfélagsins Framsýnar, að starfsmennir fullyrtu að ráðningarsamningar við þá hefðu verið falsaðir. Reynist slíkt rétt sé um að ræða alvarlegt brot hjá fyrirtækinu.

<>

Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri Munck, segir að pólska fyrirtækið, Korman, hafi farið úr landi án þess að ljúka við verkið og svari engum fyrirspurnum um launagreiðslur til starfsfólks, hvorki frá Munck né stéttarfélaginu Framsýnar, sem fari með rannsókn málsins.

Korman er talið hafa falsað ráðningarsamninga og launaseðla. Eftir að starfsmenn settu sig í samband við stéttarfélagið hófst rannsókn á málinu.

Engar upplýsingar hafa fengist frá Korman. Að sögn Ásgeirs réð Munck hluta starfsfólksins til sín í vinnu við verkefnið eftir að Korman lét sig hverfa. „Ég frétti af þessu máli fyrir stuttu þegar stéttarfélagið hafði samband. Við höfum reynt að aðstoða það við að fá upplýsingar en engar fengið,“ segir Ásgeir. „Starfsmennirnir hafa ekki rætt þetta mál við okkur né heldur farið fram á að nokkuð hafi verið vangoldið,“ segir hann.

Þyrftum afrit af millifærslum

Spurður hvort Munck hefði með einhverjum hætti getað tryggt að starfsmenn undirverktaka fengi greitt samkvæmt kjarasamningum segir hann að héðan í frá muni fyrirtækið óska eftir því að fá afrit af millifærslum auk ráðningarsamninga og launaseðla. „Þannig getum við tryggt að réttar upphæðir fari til fólksins,“ segir hann.

Þetta er í annað sinn sem Munck ræður undirverktaka sem pakkar saman og skilur pólska verkamenn sína eftir í lausu lofti. Fyrirtækið G&M var undirverktaki fyrirtækisins LNS Sögu, sem nú er Munck á Íslandi, við byggingu sjúkrahótels við Hringbraut. Í fréttum RÚV í október kom fram að starfsmenn hefðu ekki fengið greidd öll laun. Leyst var úr málinu fyrir tilstuðlan stéttarfélagsins Eflingar og greiddi LNS starfsmönnunum það sem upp á launin vantaði. „Þegar við lentum í þessu með G&M héldum við eftir greiðslum til þeirra svo við gætum gert upp við starfsfólk þeirra. Ég hef ekki kynnt mér þetta mál núna nægilega vel svo ég viti hver staðan er. Ef við berum ábyrgð á einhverju, þá greiðum við það. Við höfum gert það hingað til,“ segir Ásgeir.

Falsaðir launaseðlar vaxandi vandamál

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að falsaðir launaseðlar séu vaxandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði. Málin komi inn á borð Vinnumálastofnunar eftir ýmsum leiðum, ýmist vegna tilviljunakenndra athugana, ábendinga eða reglubundnu eftirliti Vinnumálastofnunar eða stéttarfélaganna. Hann segir að það fari eftir eðli máls hvernig það sé afgreitt.

„Í flestum tilfellum eru þetta smávægilegir agnúar sem leiðréttir eru afturvirkt og þá lýkur málinu. Ef ekki þá höfum við heimild til að beita dagsektum. Hins vegar höfum við engin úrræði gagnvart fyrirtækjum sem farin eru úr landi, líkt og hér um ræðir,“ segir Gissur. „Þá er okkur allar bjargir bannaðar,“ segir hann. Gissur bendir á Landsvirkjun hafi sett sér stefnu um keðjuábyrgð og samkvæmt henni beri yfirverktakinn, Munck ábyrgðina. Hún hafi samt sem áður enga lagalega þýðingu.

Heimild: Ruv.is