Home Fréttir Í fréttum Áætlað er að bjóða út byggingu nýrrar orkustöðvar SORPU á höfuðborgarsvæðinu

Áætlað er að bjóða út byggingu nýrrar orkustöðvar SORPU á höfuðborgarsvæðinu

140
0
Mynd: Sorpa/ Batteríið

Áætlað er að bjóða út byggingu nýrrar orkustöðvar höfuðborgarsvæðisins, gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU, í byrjun október og hefur stjórn SORPU samþykkt tillögu að útliti stöðvarinnar.

<>

Þrjár tillögur komu til greina og varð tillaga frá arkitektastofunni Batteríinu fyrir valinu.

Markmið tillöguhöfunda lúta annars vegar innávið að góðu vinnuumhverfi, þar sem reynt er að skapa tilfinningu sem minnir á eiginleika útirýmis og unnið er með ríkulegt dagsljós og skjól fyrir veðri og vindum – og hins vegar að því að skapa grænt og hlýlegt yfirbragð sem endurspegli eðli starfseminnar sem vistvænnar orkustöðvar í samspili við umhverfið og stefnu SORPU í umhverfismálum.

Mynd: Sorpa/ Batteríið

Stöðin verður 15.000 m2 að stærð en gert er ráð fyrir að hægt verði að tvöfalda stærð hennar í framtíðinni ef þörf krefur.

Stöðin samanstendur af móttöku fyrir úrgang, vinnslusal og þrjátíu þroskunarklefum fyrir lífrænan úrgang, auk tanka til gasgerðar. Stöðin mun anna allt að 35.000 tonnum af lífrænum heimilisúrgangi og er áætlað að framleiðslan verði annars vegar um 3 milljónir Nm3 af metangasi, sem hægt er að nýta sem eldsneyti t.d. á bíla, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti sem hentar til landgræðslu.

Mynd: Sorpa/ Batteríið

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í mars 2018 og að framleiðsla hefjist í stöðinni í desember sama ár. Í undirbúningi er einnig uppsetning vélbúnaðar í móttöku- og flokkunarstöð SORPU sem mun auka verulega flokkun plasts frá öðrum heimilisúrgangi og þar með endurvinnslu á plasti. Þegar stöðin verður að fullu komin í gagnið er ráðgert að yfir 95% heimilisúrgangs verði endurnýttur með einum eða öðrum hætti.

Heimild: Sorpa.is