Home Fréttir Í fréttum Fyrst vart við leka í húsi Orkuveitunnar 2004

Fyrst vart við leka í húsi Orkuveitunnar 2004

172
0
Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur segir hugsanlegt að bótaréttur vegna skemmda á húsi Orkuveitunnar sé fyrndur. Fyrst varð vart við leka árið 2004, ári eftir vígslu hússins. Þakið lak árið 2009 og aftur árið 2014. Skemmdir vegna myglu fundust árið 2015.

Umdeild bygging

Hús Orkuveitunnar á Bæjarhálsi hefur alla tíð verið umdeilt. Kostnaður við byggingu þess fór mörg þúsund milljónir króna fram úr áætlun, en nú er svo komið að stór hluti hússins er ónothæfur vegna myglu.

<>

Húsið var tekið í notkun árið 2003. Áætlaður kostnaður vegna byggingar hússins var 2,3 milljarðar króna. Þegar upp var staðið reyndist kostnaðurinn 5,3 milljarðar, og enn meiri ef gert er ráð fyrir verðlagsbreytingum. Aukinn kostnaður stafaði meðal annars af því að húsnæðið var stækkað um þúsund fermetra frá fyrstu áætlunum, án þess að það væri borið undir stjórnina. Þá var hvorki gert ráð fyrir loftræstingu né lóðafrágangi við áætlun kostnaðar. Í skýrslu um Orkuveituna frá 2012 segir að mikill hraði sem einkenndi verkið hafi orðið til að auka kostnaðinn. Til dæmis hafi parket verið lagt á gólfin hráblaut til að standast tímaáætlun, þau hafi þá bólgnað upp og þurft að skipta um parket í öllu húsinu.

Sala eða lán?

Skuldastaða Orkuveitunnar var mjög slæm eftir hrun. Árið 2013 var húsið selt til félags í eigu lífeyrissjóða á 5,1 milljarð króna, með þeim skilyrðum að Orkuveitan leigi húsið til tuttugu ára, og sjái um viðhald þess. Á tuttugu árum greiðir fyrirtækið samtals 3,4 milljarða í leigu. Samningurinn var gagnrýndur af minnihluta borgarstjórnar, sem sagði hann í raun bara dýrt lán.

Leki 2004, 2009 og 2014

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni varð fyrst vart við leka á austurhlið vesturhússins árið 2004. Ráðist var í úrbætur í samstarfi við BYKO, sem var umboðsaðili danska framleiðandans HS Hansen á veggjakerfinu. Þá varð leki árið 2009, á þaki hússins, og aftur 2014. Ekki er vitað hvort hægt er að rekja rakaskemmdirnar nú til þessara leka. „Það eru einmitt svona spurningar sem að við vonumst til að fá svör við í þeirri óháðu úttekt sem við viljum fá dómkvaddan matsmann til að fara í,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar. „Ekki bara til að við getum metið lagalega stöðu með tilliti til hugsanlegs bótaréttar eða bótakrafna, heldur ekki síður að það sé hægt að læra af þessum ósköpum.“

Árið 2015 fundust rakaskemmdir og mygla í vesturhúsinu, sem hefur síðan staðið autt. Niðurstaða úttektar verkfræðistofunnar Eflu á skemmdunum var að margskonar ágallar hefðu verið á uppsetningu útveggjar hússins, til dæmis hafi of langar skrúfur verið notaðar. Byggingarstjórn og eftirlit var í höndum Verkfræðiþjónustu Magnúsar Bjarnasonar, SIGMA. Ekki náðist í forsvarsmenn verkfræðistofunnar í dag.

Bótaréttur kannski fyrndur

Áætlaður kostnaður vegna viðgerða hússins hleypur á milljörðum króna. Eiríkur segir að hugsanlega sé orðið of seint að krefjast bóta, þó að úttektin leiði í ljós hver beri ábyrgð. „Það er alveg hugsanlegt. Það er einmitt það sem að svona vel grunduð úttekt á allri sögu hússins, byggingarsögunni og rekstrarsögunni mun vonandi leiða í ljós, hvort að þarna er einhver hugsanlegur bótaréttur enn fyrir hendi.“

Heimild: Ruv.is