Home Fréttir Í fréttum Nýtt spennuvirki tekið í notkun í Vestmannaeyjum

Nýtt spennuvirki tekið í notkun í Vestmannaeyjum

92
0
Mynd: Landsnet.is

Í gær miðvikudaginn 23. ágúst tóku HS Veitur hf. og Landsnet formlega í notkun nýtt 66 kV spennuvirki sem staðsett er við Strandveg 16 í Vestmannaeyjum.

<>

Forstjóri HS Veitna hf, Júlíus Jónsson, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Hildur Sólveig Sigurðardóttir forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja ávörpuðu gesti og fóru yfir framkvæmdina og mikilvægi hennar fyrir Vestmannaeyjar.

Byggingarframkvæmdir voru boðnar út haustið 2015 og var samið við Steina og Olla um byggingu hússins og hófust framkvæmdir í febrúar 2016. Uppsetning á rafbúnaði hófst haustið 2016 og var mannvirkið fullklárað í lok mars 2017.

Byggingin sem er um 526 m2 er 62% í eigu HS Veitna og 38% í eigu Landsnets.

Kostnaður HS Veitna við spennuvirkið og tengd mannvirki var í heild  um 518 m.kr. og innifalið í því er 66/33 kV spennir, tilheyrandi rofar og annar búnaður, 62% hússbyggingarinnar og loks nauðsynlegar tengingar við kerfið í Vestmannaeyjum.

Kostnaður Landsnets var um 385 m.kr. vegna búnaðar í spennuvirkinu í Vestmannaeyjum og 38% hlutdeildar í byggingunni sem og nauðsynlegra breytinga í Rimakoti í Landeyjum.

Hönnun hússins var í höndum Hornsteina og verkfræðistofunnar Lotu, Verkfræðistofan VSÓ sá um verkeftirlitið og byggingastjórnun. Aðrir verktakar sem komu að byggingunni voru; Steini og Olli, Verkís, Orkuvirki, Rafal, Efla, Rafmiðlun og PCS. Spennirinn er frá Koncar í Króatíu og rafbúnaður frá Rönnig/ABB og Alstom.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets sagði nýja spennuvirkið koma til með að auka öryggi orkuafhendingar á svæðinu og bæta aðgang Eyjamanna að rafmagni.

“Spennuvirkið sem við erum að taka formlega í notkun í dag eykur öryggi rafmagns og gerir mögulegt að flytja meiri raforku til Vestmannaeyja. Nýja tengivirkið og sæstrengurinn hafa þegar tvöfaldað flutningsgetu raforku til Eyja. Þessi áfangi er mikilvægur bæði fyrir heimilin og fyrirtækin þar sem tryggur aðgangur að rafmagni er forsenda nútíma samfélags og blómlegs atvinnulífs. Tilkoma þessara mannvirkja skapar tækifæri í Eyjum til þess að nýta hreint rafmagn í stað eldsneytis meðal annars í fiskimjölverksmiðjunum. Við hjá Landsneti munum fylgjast vel með þróuninni enda eru þessar framkvæmdir hluti af stærri uppbyggingu til framtíðar.“

Við þetta tækifæri sagði Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna hf:

„Þetta er gleðidagur fyrir Eyjamenn og fyrirtækið. Mannvirkið er nýtt 66 kV spennuvirki þannig að flutningsgeta 66 kV sæstrengs sem lagður var árið 2013 fullnýtist. Með þessu eykst flutningsgeta til Eyja umtalsvert eða um 15 MW úr 22 MW í 37 MW í upphafi og meira síðar þegar ákveðnar endurbætur hafa verið gerðar á Suðurlandi. Rekstraröryggi eykst einnig þar sem m.a. raforkuflutningur til Eyja fer ekki lengur um 66/33 kV spenni í aðveitustöð í Rimakoti. Loks má nefna að með þessari tengingu skapast möguleikar til að stórminka olíunotkun í fiskimjölverksmiðjunum í Eyjum og nýta þess í stað raforku og sömuleiðis opnast frekari möguleikar á orkuskiptum í samgöngum samanber nýjan Herjólf og bílaflotann.“

Heimild: Landsnet.is