Home Fréttir Í fréttum Verktaki vill kaupa upp fimm götur í Kópavogi

Verktaki vill kaupa upp fimm götur í Kópavogi

330
0
Hús við Vallartröð eru á meðal þeirra sem Hamur þróunarfélag hefur gert tilboð í. Mynd: Vísir/Vilhelm

Eigandi verktakafyrirtækisins Jáverks hefur keypt eða gert tilboð í meginþorra fasteigna við fimm götur í Digraneshverfinu í Kópavogi. Vinna við breytingu á deiliskipulagi er ekki enn hafin og því liggja ekki fyrir leyfi fyrir framkvæmdum við ný fjölbýlishús sem þar á að byggja.

<>

Um er að ræða göturnar Álftröð, Háveg, Neðstutröð, Vallartröð og Skólatröð eða fasteignir í námunda við Kópavogsskóla og Menntaskólann í Kópavogi. Þær eru um 35 talsins og voru flestar byggðar á sjötta áratug síðustu aldar og hverfið því rótgróið.

Samkvæmt upplýsingum Markaðarins hefur eigendum fasteigna við Neðstutröð borist tilboð í eignir þeirra. Þar má finna fjögur einbýlishús og hefur Hamur þróunarfélag, í eigu forsvarsmanna Jáverks, keypt tvö þeirra og gert tilboð í önnur. Félagið er eigandi allra þeirra fasteigna sem eigandi Jáverks hefur keypt í hverfinu. Rakarastofan Herramenn hefur verið rekin við enda götunnar að Neðstutröð 8 í 56 ár. Eigendur hennar segja í samtali við Markaðinn að eignin verði ekki seld á næstu árum.

Gylfi Gíslason, eigandi og framkvæmdastjóri Jáverks og stjórnarformaður Hams þróunarfélags, vill ekki gefa upp hversu margar eignir eða fermetra félagið hefur keypt í hverfinu. Hluthafaupplýsingar um Ham hafa ekki verið uppfærðar hjá hlutafélagaskrá Ríkisskattstjóra en allt hlutafé Jáverks er í eigu Gylfa.

„Við eigum allar eignir við Háveg og Skólatröð og Álftröð alveg. Við eigum meginþorrann af eignum við Neðstutröð og Vallartröð. Það er varla hægt að segja að deiliskipulagsvinna sé hafin. Það er stefnt að þéttingu byggðar en auðvitað hefur sveitarfélagið skipulagsvaldið að lokum,“ segir Gylfi.

Viðskiptablaðið greindi frá kaupum á fasteignum við Háveg, Skólatröð og Álftröð í apríl síðastliðnum. Kom þá fram að rífa eigi einbýlishúsin sem standa flest á tiltölulega stórum lóðum og þétta byggðina með fjölbýlishúsum. Fréttablaðið hafði tveimur vikum síðar eftir heimildum að margar eignirnar hefðu verið seldar á yfirverði og í nokkrum tilvikum hefðu eigendur selt hús sín með tugmilljóna króna hagnaði. Nokkrir viðmælendur blaðsins líktu viðskiptunum við að fá lottóvinning.

Þá var einnig greint frá því að engin vilyrði hafa verið gefin eigendum verktakafyrirtækisins um samþykkt Kópavogsbæjar á nýju deiliskipulagi eftir áformum þeirra. Af orðum Gylfa í frétt blaðsins í lok apríl mátti skilja að viðræður um breytingar við Kópavogsbæ færu á fullt eftir að eigendur Jáverks hefðu tryggt sér allar eignirnar í götunum.

Um 50 íbúar í nálægum götum hafa skrifað undir erindi sem átti að afhenda Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, rétt fyrir hádegi í dag. Fundinum með bæjarstjóranum var aftur á móti frestað um viku. Íbúar við Álfhólsveg og Hátröð skrifuðu undir en einnig sumir þeirra fasteignaeigenda sem búa við Skólatröð, Neðstutröð og Vallartröð og hafa  fengið tilboð frá Ham þróunarfélagi. Fullyrðir hópurinn að hart hafi verið lagt að húseigendum við Háveg að selja og gefið í skyn að að öðrum kosti myndu háar byggingar rísa í kringum eignir þeirra sem myndu fella þær í verði.

Heimild: Visir.is