Home Fréttir Í fréttum Ábyrgðargjald aldrei verið innheimt vegna Vaðlaheiðarganga

Ábyrgðargjald aldrei verið innheimt vegna Vaðlaheiðarganga

55
0
Þingmaður Pírata er ósáttur við að ábyrgðargjald, vegna láns ríkisins til Vaðlaheiðarganga, hafi ekki verið greitt, líkt og lög gera ráð fyrir. Formaður fjárlaganefndar segist ekki vita hvers vegna gjaldið hafi aldrei verið innheimt.

Samkvæmt nýrri skýrslu um Vaðlaheiðargöng bendir allt til þess að ríkið þurfi sjálft að veita nýtt lán til framkvæmdarinnar innan fárra ára, til að endurfjármagna framkvæmdalán með ríkisábyrgð sem hafa þegar verið veitt. Samkvæmt lögum skulu þeir sem njóta ríkisábyrgðar á lánum greiða sérstakt ábyrgðargjald, því þeir njóti hagstæðari lánakjara en bjóðast á markaði. Í tilfelli Vaðlaheiðarganga hefur þetta gjald þó ekki verið greitt á þeim fimm árum síðan ríkið veitti fyrst lán til framkvæmdarinnar.

<>

„Það er ekki verið að fara eftir þeim lögum, það er ekki verið að rukka fyrir ábyrgðargjald og áhættugjald sem er munur á ríkisvöxtum, eða vöxtum sem ríkið getur fengið á markaði, og því sem einkaaðili getur fengið á almennum markaði fyrir að gera þessa framkvæmd sjálfur,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, segist ekki vita hvers vegna stjórnvöld hafi ákveðið að innheimta ekki gjaldið. „Nei, ég veit ekki til þess og það stjórnarlið sem er núna kom í sjálfu sér ekkert að því. Þetta er bara hluti af þeim samningum og frágangi sem gert var á þessu verki á þeirri tíð sem þetta var ákveðið og verkinu hrint af stað,“ segir Haraldur.

Ekki hafi þótt ástæða til að hrófla við því fyrirkomulagi, en málið verði endurskoðað að framkvæmdum loknum. Björn Leví gagnrýnir að farið sé á svig við lög með þessum hætti. „Ég sendi ábendingu á Umboðsmann Alþingis til þess að reka á eftir því að þessi gjöld væru innheimt,“ segir Björn.