Í apríl kynnti KEA þá ákvörðun að hefja byggingu 150 herbergja hótels við Hafnarstræti 80 á Akureyri, á svokölluðum Drottningarbrautarreit. Áætlaður framkvæmdatími var tvö ár og stefnt að opnun á vormánuðum 2019. Bygging hótelsins er enn ekki hafin. Farg var sett á lóðina í vetur og stendur þar óhreyft.
Verkefnið tefjist trúlega um heilt ár
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir að ástæðan sé sú að hluti lóðarinnar sé enn að síga. Á meðan sé ekki hægt að hefja þar byggingaframkvæmdir. „Ég reikna með að það skýrist í næsta mánuði hvenær við getum byrjað. Úr þessu hefjast framkvæmdir þó varla að ráði fyrr en næsta vor.“ Og hann segir að þetta verði trúlega til þess að verkefnið tefjist um heilt ár og að hótelið verði opnað á vormánuðum 2020.
Áformin um nýtt hótel óbreytt að öðru leiti
Að öðru leyti segir Halldór ekkert hafa breyst varðandi verkefnið. „Nei það hefur engin ákvörðun verið tekin um að hverfa frá því að byggja þetta hótel. Þetta sig á lóðinni var ófyrirséð og veldur töfum á verkefninu, en við því er lítið að gera.“ Aðspurður hvort þessar tafir hafi einhver áhrif á hugsanlegt samstarf KEA við önnur fyrirtæki í verkefninu, hótelreksturinn og fleira, segir Halldór svo ekki vera.
Rúmlega tveggja milljarða verkefni
Áætlaður kostnaður við verkefnið er rúmir tveir milljarðar króna. Frumhönnun hótelsins er lokið, en Halldór segir að endanlegur kostnaður ráðist af því hver lokaútfærslan verði.
Heimild: Ruv.is