Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir ekki eðlilegt að lífeyrissjóðir fjármagni fasteignafélög sem kaupi upp heilu fjölbýlishúsin og eigi í þeim hlut. Þeir séu með því í samkeppni við sjóðfélaga sína og sprengi upp íbúðaverð.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um rúm 16 prósent á síðustu tólf mánuðum. Hækkun húsnæðisverðs skýrist að hluta til af því að of lítið hefur verið byggt síðustu ár.
Samkvæmt greiningardeild Arion banka þarf að byggja að minnsta kosti átta þúsund íbúðir á næstu þremur árum til að halda í við fólksfjölgun.
Á svæðum eins og í Glaðheimum í Kópavogi, þar sem töluverður fjöldi íbúða er í uppbyggingu, eru þess dæmi að fasteignafélög, sem fjármögnuð eru af lífeyrissjóðum, kaupi upp heilu fjölbýlishúsin. Umræddar íbúðir fari því í útleigu eða eru seldar síðar með töluverðu álagi.
Bæjarstjórinn í Kópavogi segir þetta ekki eðlilega þróun en hann var gestur Víglínunnar í dag.
„Hvernig á þetta fólk að geta keppt við þessu sterku félög? Og af hverju eru lífeyrissjóðirnir í samkeppni við fólkið sitt um þetta? Sprengja upp íbúðaverðið… Ég skil þetta ekki.“
Heldurðu að þessi fasteignafélög séu einmitt að sprengja upp íbúðaverð?
„Mér finnst það engin spurning. Það er skortmarkaður og þessir aðilar eru að spila þennan skortmarkað,“ segir Ármann.
Hann segir best fyrir bæjarfélög að bregðast við þess ástandi með því að auka lóðaframboð.
En vill Ármann ekki takmarka umsvif þessara félaga?
„Það er þá bara löggjafinn sem verður að koma inn í það.“
Heimild: Visir.is