„Ég er gjörsamlega að sturlast á þessu ástandi. Þetta er eins og að upplifa stöðuga jarðskjálfta,“ segir Helga Nótt Gísladóttir, íbúi við Vesturgötu, í samtali við DV. Ástandið sem um ræðir eru framkvæmdir verktakafyrirtækisins Mannverks á Naustreit í miðbænum, sem afmarkast af Tryggagötu, Norðurstíg og Vesturgötu. Háværar framkvæmdir hafa staðið yfir síðan um miðjan ágúst og var áætlaður verktími 10–12 vikur. Verkið hefur tafist um rúman mánuð og ekkert útlit er fyrir að það klárist í bráð.
Sprengjuhöllin vannýtt gullnáma
„Ég er að jafna mig eftir krabbameinsaðgerð og þetta hefur verið hreint helvíti að búa við þetta. Hér nötrar allt frá átta að morgni og fram til rúmlega 18, alla virka daga og stundum um helgar líka,“ segir Helga Nótt, þegar hún tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara á heimili sínu. Hún kallar húsið „Sprengjuhöllina“ og grínast með að ferðaþjónustufrömuðir hefðu átt að sjá sér leik á borði og leyfa erlendum ferðamönnum að upplifa íslenska jarðskjálfta í allri sinni dýrð. „Þeir gætu setið hérna með kaffi og nötrað allan daginn. Þetta er eiginlega vannýtt gullnáma,“ segir Helga Nótt og hlær. Hún er fyrrverandi loðdýrabóndi en hennar helsta verkefni nú er að reyna að ná fyrri heilsu, með húmorinn að vopni.
„Ég á að byrja í lyfjameðferð eftir áramót en er að íhuga hvað ég geri. Kannski ákveð ég að lifa í ár með hár,“ segir hún glettin. Óhætt er að segja að hávaðinn sé ærandi, taktföst höggin berast að utan og nísta í merg og bein. Allt leikur á reiðiskjálfi innandyra. „Það er hægt að sýna ákveðinn skilning á því að ónæði fylgi svona framkvæmdum. Hins vegar er glórulaust að hefja framkvæmdir svona snemma á daginn og um helgar á maður að fá frið. Það er að mínu mati mannréttindabrot að hafa þetta yfir sér um helgar,“ segir Helga Nótt.
Svör Mannverks
„Við hörmum þau óþægindi sem nágrannar okkar verða fyrir vegna framkvæmdanna. Þessari jarðvegsvinnu lýkur á allra næstum dögum og þá tekur uppbyggingin við,“ segir Hjalti Gylfason, framkvæmdastjóri Mannverks, í samtali. Að hans sögn hefur fyrirtækið reynt að vanda sig í hvívetna til þess að sem minnst ónæði verði af framkvæmdum en tafirnar á framkvæmdunum megi rekja til breytts verklags.
„Við hófum ekki klapparlosun fyrr en 11. október, mun seinna en fyrst var auglýst. Það kom í ljós að klöppin var lausari í sér en talið var í fyrstu og þá var ákveðið að nota svokallaðan „vökvaripper“ til þess að kroppa hana upp.
Við höfum því ekki þurft að sprengja eina einustu sprengju og aðeins þurft að beita fleygun í nokkrum tilvikum. Þær aðferðir valda mun meira raski,“ segir Hjalti.
Þá nefnir hann að Mannverk hafi, í samstarfi við byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar, leitað allra leiða til þess að gera framkvæmdirnar bærilegar fyrir nærliggjandi umhverfi.
„Við beittum svokallaðri saumtækni, eða saumborun, þar sem allur úthringurinn er boraður til þess að rjúfa hljóð – og hristingsleiðni til nærliggjandi lóða. Það er óhjákvæmilegt að þétting byggðar skapi tímabundin óþægindi sem þessi en við róum að því öllum árum að halda þeim í lágmarki,“ segir Hjalti.
Heimild: DV.is