Home Fréttir Í fréttum Formleg verklok hitaveitu í Fljótum

Formleg verklok hitaveitu í Fljótum

103
0

Á heimasíðu Svf. Skagafjarðar kemur fram að síðasti verkfundur vegna hitaveitu í Fljótum hafi farið fram í síðustu viku. Því má segja að verkefninu sé nú lokið með formlegum hætti. Búið er að tengja 29 notendur hitaveitunni en þó nokkrar tengingar bíða næsta árs.

Verkinu var skipt á tvö ár, 2015 og 2016, og lagði verktakinn, Steypustöð Skagafjarðar, lokahönd á síðustu heimæðar í Fljótunum í október síðastliðinn eins og fram kemur á heimasíðu Skagafjarðarveitna.

Alls voru lagðir um 46 kílómetrar af lögnum sem skiptast nokkurn veginn til helminga í stál- og plastlagnir. Boraðar voru þrjár borholur vegna verksins og eru tvær þeirra nýttar í dag. Síðasta holan sem boruð var lukkaðist með eindæmum vel. Borað var niður á um 170 m dýpi og sýna afkastamælingar að holan geti gefið ríflega 35 l/s af 110°C heitu vatni.

Í dag er því aðeins verið að nota brot af afkastagetu holunnar en rennslinu úr holunni er stjórnað þannig að aðeins er notað það magn sem nýtist veitunni hverju sinni. Byggðar voru þrjár nýjar dælustöðvar vegna verksins.

Stærsta dælustöðin er við Langhús í Fljótum, rétt við áðurnefndar borholur, önnur dælustöð er við Molastaði og sú þriðja við Hvamm, rétt norðan við Stífluhóla.

Heimild: Feykir.is

Previous articleSorglegar framkvæmdir á Grensásvegi segja vagnstjórar Strætó
Next articleÞetta er eins og að upplifa stöðuga jarðskjálfta