Home Fréttir Í fréttum Sorglegar framkvæmdir á Grensásvegi segja vagnstjórar Strætó

Sorglegar framkvæmdir á Grensásvegi segja vagnstjórar Strætó

88
0

Vagnstjórar hjá Strætó bs. segjast harma að borgaryfirvöld séu sífellt að þrengja að ferðum strætisvagna um götur borgarinnar með framkvæmdum sínum.

<>

„Það er mjög sorglegt að hlusta á borgaryfirvöld tala digurbarkalega í fjölmiðlum um að efla þurfi almenningssamgöngur og greiða forgang þeirra í gatnakerfinu á sama tíma og hindrunum er stöðugt brugðið fyrir eðlilegan akstur strætisvagna,“ segir í ályktun fundar vagnstjóranna.

Skipulagsyfirvöld borgarinnar eru sögð vinna markvisst að þrengingum á leiðum strætisvagnanna. „Nægir þar að nefna hina sorglegu framkvæmd á Grensásvegi og núna síðast þrengingar á Geirsgötu og Lækjartorgi.“

Þá krefjast vagnstjórar þess að hraðahindranir verði fjarlægðar þar sem kostur sé. „Þær eru heilsuspillandi og bjóða upp á stoðkerfisvandamál hjá vagnstjórum. Auk þess fara hraðahindranir illa með vagnaflotann sem er þegar orðinn gamall og slitinn og bilanatíðni há,“ segja þeir í ályktun sinni. Þá segja vagnstjórarnir að umferð í höfuðborginni hafi aukist svo um muni á milli ára og full þörf sé á að endurskoða leiðakerfi og tímatöflur í því ljósi.

„Fundurinn harmar að lokum að borgaryfirvöld klifi á umræðu um léttlestarkerfi og borgarlínu með tilheyrandi tugmilljóna kostnaði í stað þess að hlúa að núverandi strætisvagnakerfi,“ segja þeir. „Vagnar sem aka til dæmis um miðbæinn standast ekki lengur tímaáætlanir og því er erfitt fyrir viðskiptavini að treysta á þjónustu þeirra. Því hlýtur að vakna sú spurning hvort strætó sé yfirhöfuð valkostur?“

Heimild: Visir.is