Home Fréttir Í fréttum Fagnar umræðu um arkitektúr

Fagnar umræðu um arkitektúr

22
0
Arnhildur Pálmadóttir fyrir utan félagsbústaði við Háteigsveg 59. RÚV – Halla Harðardóttir

„Arkitektar þurfa að þora að taka þátt í því að breyta,“ segir Arnhildur Pálmadóttir sem er arkitektinn á bak við félagsbústaðina við Háteigsveg 59. Húsið er tilnefnt til hönnunarverðlauna Íslands sem verða afhent á fimmtudag.

Nýir félagsbústaðir við Háteigsveg 59 hafa skapað heitar umræður um arkitektúr. Arkitektinn á bak við verkið, Arnhildur Pálmadóttir, fagnar umræðunni og segir arkitekta þurfa að þora að taka þátt í breytingum.

„Bygging er ekki bara bókarkápa, þetta er bók, það þarf að lesa bókina líka til að skilja húsið,“ segir Arnhildur í Víðsjá á Rás 1.

Húsið er klætt með endurunnum við sem hefur verið brenndur að japönskum hætti, og hönnunin er tilnefnd til hinna alþjóðlegu Mies van der Rohe-verðlauna og til Hönnunarverðlauna Íslands sem verða afhent á fimmtudag. Arnhildur og stofa hennar s.ap arkitektar eru fulltrúar Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr í ár. Arnhildur hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra.

„Arkitektar þurfa að þora að taka þátt í því að breyta, það þarf að breyta svo miklu núna hvernig við byggjum, í tengslum við loftslagsmál. Við megum ekki vera hrædd. Og ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk tali um húsin okkar.“

Heimild: Ruv.is