Veita á 500 milljóna króna tímabundið stofnkostnaðarframlag til að hefja byggingu á nýju skrifstofuhúsnæði fyrir Alþingi. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 sem birt var í dag.
Um er að ræða 4500 fermetra byggingu auk 1200 fermetra bílakjallara. Í frumvarpinu kemur fram að húsnæðið er minna en það sem nú er leigt undir starfsemi þingsins. Byggingin muni hýsa starfsemi Alþingis, þ.e. aðra en þá sem fram fer í Alþingishúsinu, Skála og öðrum byggingum við Kirkjustræti.
Um er að ræða aðstöðu fyrir þingmenn og þingflokka og nefndarstörf, auk rekstrar- og þjónustusviðs og kemur hið nýja húsnæði í stað þess dreifða húsnæðis sem Alþingis leigir nú fyrir skrifstofur þingmanna og nefndarstarf.
Á þriðja tug hugmynda bárust í hönnunarsamkeppni vegna byggingarinngar og stendur til að kynna niðurstöðurnar fyrir áramót. Gerð er ráð fyrir að byggingin taki þrjú ár í byggingu og verði vígð áramótin 2019/2020.
Heimild: Visir.is