„Stærsta hagvaxtarsvæði á landinu er í Reykjavík og framundan er mikil fjárfesting, bæði erlend og innlend. Reykjavík dregur vagninn í hagvexti á Íslandi,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á fundi um fjárfestingu í Reykjavík í morgun, en fundurinn fór fram í Tjarnarsal Ráðhússins.
Í máli Dags kom fram að mikill uppbyggingartími væri framundan, meðal annars 35 milljarða hóteluppbygging í Reykjavík, en á þessu ári verða byggð 800 ný hótelherbergi í Reykjavík, flest miðsvæðis. Herbergin munu verða hluti af sjö hótelum.
Í máli Dags kom fram að uppbyggingin í borginni væri að miklu leyti rakin til ferðaþjónustunnar, en fram hennar til hagvaxtar hefur vaxið úr 4,9 prósent árið 2006 upp í 7,5 prósent árið 2013. Reykjavík er mikill miðpunktur í ferðaþjónustunni, að því er fram kom í máli Dags, en um 70 prósent ferðaþjónustunnar hér á landi er á höfuðborgarsvæðinu.
Á næstu árum er gert ráð fyrir að enn fleiri hótelherbergi muni bætast við þann fjölda sem fyrir er, en þar á meðal er bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Company sem hyggst opna 250 herbergja fimm stjörnu hótel við Hörpuna, árið 2018.
Heimild: Kjarninn.is