Home Fréttir Í fréttum Fjárfesta fyrir 170 milljarða

Fjárfesta fyrir 170 milljarða

68
0
Miklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli eru taldar nauðsynlegar á næstu árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stórfelld uppbyggingaráform Isavia á Keflavíkurflugvelli voru kynnt Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi (SAR) um miðjan síðasta mánuð og kom þar m.a. fram að nauðsynlegt er að fjárfesta fyrir um 170 milljarða króna á flugvellinum og í flugstöðinni á tímabilinu 2026-2040.

Þetta kemur fram í kynningu sem Morgunblaðið hefur undir höndum og send var hlutaðeigandi í framhaldi af fundinum.

Þar kemur einnig fram að áformaðar fjárfestingar í ár og á næstu tveimur árum eru um 38 milljarðar, samkvæmt áætlunum Isavia.

Verkefnin sem um ræðir og kynnt voru hlutaðeigandi eru af ýmsum toga. Þau snúa m.a. að stækkun tengibyggingar þar sem fjölga á hliðum úr tveimur í þrjú, en nú eru þar tvö hlið sem aðeins eru ætluð Schengen-farþegum, en með fjölguninni verður þriðja hliðið opnað fyrir umferð farþega utan Schengen-svæðisins.

Gert er ráð fyrir að hönnunin sem nú er unnið að taki um 10 mánuði, en framkvæmdir ríflega hálft fimmta ár. Stærð byggingarinnar verður 10 þúsund fermetrar og er heildarkostnaður áætlaður 22,3 milljarðar króna.

Þá á að hefja vinnu við akbraut Bravo og afísingarsvæði flugvéla með það að markmiði að létta álagi að og frá flughlaði að flugbraut 01/19 og bæta aðkomu flugvéla að afísingarsvæði og röðun þeirra inn á svæðið.

Umfang verkefnisins er 185 þúsund fermetrar í akbrautum flugvéla, á öxlum og á afísingarsvæði þar sem komið verður fyrir átta afísingarlínum. Áætlaður kostnaður við akbrautina Bravo er tæpir 4,9 milljarðar, en kostnaður vegna afísingarsvæðisins er 5,3 milljarðar. Hönnunartími er áætlaður allt að 15 mánuðir en framkvæmdir geta tekið þrjú ár.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu og Moggaappinu í dag á blaðsíðu 6.

Heimild: Mbl.is