Borgin hefur keypt land við Esjurætur sem þykir henta vel fyrir uppbyggingu gagnavers.
Reykjavíkurborg hefur keypt land í Varmadal, sem staðsettur er við Esjurætur, sem þykir henta vel fyrir uppbyggingu gagnavers þar sem tengivirki Landsnets er þar rétt hjá. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á opnum fundi um fjárfestingu í Reykjavík sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur nú í morgun.
Fjárfestingin nemur 312 milljónum króna og svæðið er alls um 180 hektarar að stærð, að því er fram kemur á mbl.is. Kveðst Dagur sjá mikil tækifæri á þessu svæði á komandi árum. Hægt sé að þróa þetta sem spennandi atvinnusvæði með áherslu á grænan iðnað.
Þá segir hann greiningu á markaðnum benda til að gagnaver rísi oft með mjög stuttum fyrirvara og því þurfi skipulagið að vera tilbúið.
Heimild: Vb.is