Home Fréttir Í fréttum Tekist á um dýran húsgrunn á Þingvöllum

Tekist á um dýran húsgrunn á Þingvöllum

183
0
Mynd: RÚV
Þingvallanefnd ákveður endanlega á þriðjudag hvort hún nýtir forkaupsrétt að húsgrunni í þjóðgarðinum. Komið er kauptilboð í hann upp á tugi milljóna króna. Róbert Marshall fulltrúi Bjartrar framtíðar í nefndinni segir það fara gegn stefnu þjóðgarðsins og skuldbindingum við Unesco að nýta ekki réttinn.

Húsgrunnurinn er á Vallhallarstíg nyrðri við vatnið og má reisa þar 160 fermetra sumarbústað. Hann var auglýstur til sölu í sumar.

<>

„Það sem þarna er á ferðinni að það var tekin ákvörðun 2007, jafn kaldhæðnislega og það hljómar, að leyfa byggingu þessa stóra bústaðar á þessum stað úr þessu efni. Og allar þessar forsendur þ.e.a.s. staðarvalið, stærðin og efnisvalið ganga þvert gegn framtíðarstefnumótun þjóðgarðsins og líka gegn þeim skuldbindingum sem að við höfum undirgengist sem staður á heimsminjaskrá UNESCO.“

Róbert hefur óskað eftir viðbótargögnum vegna málsins. Hann var á síðasta fundi nefndarinnar en ekki fundinum þar áður þegar þetta mál var tekið fyrir og vonar Róbert að meirihlutinn endurskoði afstöðu sína um að nýta ekki forkaupsréttinn.

„Enda er það ekki nefndarinnar að ákveða hvort það séu til fjárheimildir til fyrir þessu eða ekki. Nefndin á að meta það hvort hún nýtir sinn forkaupsrétt.“

Það komið fram þegar verið var að tala um þessi grunnur væri falur í fjölmiðlum fyrr á þessu ári að það hefðu verið settar á þetta 85 milljónir. Það er nú slatti?

„Já, það eru miklir peningar en við erum að tala um stað, sem að er þá farinn fyrir fullt og allt. Hann er þá í höndum einkaaðila um ókomna framtíð. Og það á að vera og það er stefna þjóðgarðsins að hann sé fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir fólk sem á peninga. Og það sem að þarna gerist þá er að þessu svæði verður lokað og almenningur hefur ekki aðgang að þessu. Þetta er alveg ofan í sjálfri þinghelginni í garðinum. Ég held að kaupsamningurinn sem að um ræðir sé ekki svona hár og þó að hann væri það þá fyndist mér að við ættum að kaupa þessa lóð.“

Formaður nefndarinnar, Sigrún Magnúsdóttir, segir að Þingvallanefnd sé nýbúin að kaupa þrjár lóðir og ætlar ekki að tjá sig fyrir þennan síðasta fund þessarrar Þingvallanefndar á þriðjudaginn þar sem afgreiða á málið. Í sama streng tekur varaformaðurinn, Birgir Ármannsson.

Heimild: Ruv.is