Íslandsbanki spáir því að verð íbúðahúsnæðis hækki á landinu öllu um 9,3% á þessu ári, um 11,4% á næsta ári og 6,6% á árinu 2018. Þetta þýðir samkvæmt spá bankans raunhækkun upp á 7,8% í ár, 9,7% á næsta ári og 3,4% árið 2018. Helstu ástæður hækkunarinnar eru vaxandi kaupmáttur launa, lýðfræðilegar breytingar og vöxtur í ferðaþjónustu á móti takmörkuðu framboði nýbygginga. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Íslandsbanka um íbúðamarkaðinn á Íslandi.
Verð hækkar en ekki verðbóla
Segir í skýrslunni að búist sé við því að raunverðshækkunin verði hröðust á fyrri hluta spátímans, bæði vegna þess að þá sé búist við meiri nafnverðshækkun og lægri verðbólgu. Einnig sé reiknað með meiri vexti kaupmáttar, meiri fólksfjölgun og meiri vexti í ferðaþjónustu á fyrri hlutanum.
Gerir bankinn ráð fyrir því að undir lok spátímabilsins muni raunverð íbúðarhúsnæðis standa nokkuð hátt sögulega séð, en í skýrslunni segir að það sé nokkuð nálægt langtímajafnvægi eins og staðan er í dag. Þrátt fyrir það telur bankinn ekki að verðbóla muni myndast á tímabilinu vegna stöðugrar hækkunar launa á sama tíma.
Fleiri hjónaskilnaðir og einstæðingar
Breytingar á lýðfræðilegum þáttum eru að sögn bankans undirstöðuatriði þegar kemur að íbúðamarkaðinum og segir þar að stór hluti ungs fólks á aldrinum 18-34 ára, sem eru líklegasti aldurshópurinn til að kaupa fyrstu íbúð, búi nú í foreldrahúsum. Er hlutfallið í dag um 36% og segir bankinn því líklegt að hlutfall fyrstu kaupenda muni hækka enn frekar í náinni framtíð.
Þá hefur tíðni hjónaskilnaða og hlutfall einhleypra einnig aukist og eru aðilar í hjónabandi eða óvígðri sambúð með börn nú 5,3 prósentustigum færri en árið 1998. Einstæðingum hefur fjölgað um 2,8 prósentustig á sama tíma.
Aldrei meiri þörf á smærri íbúðum
Miðað við þessar tölur og mannfjöldaspá Hagstofunnar segir bankinn að allt bendi til þess að spurn eftir smærri íbúðum muni að öllum líkindum aukast enn frekar. „Með áðurgreinda þróun til hliðsjónar hefur þörf á smáum íbúðum að öllum líkindum aldrei verið meiri en nú,“ segir í skýrslunni.
Heimild: Mbl.is