Héraðssaksóknari hefur ákært Valdimar Lúðvík Gíslason fyrir að hafa skemmt friðað hús í Bolungarvík í júlí árið 2014.
Ásamt því að vera ákærður fyrir stórfelld eignaspjöll, brot gegn hagsmunum almennings og brot á lögum um menningarminjar gerir Bolungarvíkurkaupstaður þá kröfu að Valdimar Lúðvík verði dæmdur til að greiða skaðabætur upp á 5,5 milljónir króna vegna málsins.
Valdimar Lúðvík er ákærður fyrir að hafa tekið þátt í að brjóta niður þak, veggi og skorstein að hluta til á norðanverðum hluta húsnæðisins að Aðalstræti 16 í Bolungarvík sem var byggt árið 1909 og hafði verið friðað frá 1. janúar 2010 samkvæmt ákvæðum laga um menningarminjar.
Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að við háttsemina hafi verið notast við óþekkta vinnuvél og voru afleiðingarnar þær að stórfellt tjón varð á húsnæðinu.
Gæti Valdimar Lúðvík átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisvist vegna málsins verði hann dæmdur til þyngstu refsingar, en embætti héraðssaksóknara segir málið varða 177. grein og 2. málsgrein 257. greinar almennra hegningarlaga.
Heimild: Visir.is