„Þetta var svaka dynkur,“ segir Skúli Þórðarson, starfsmaður Bæjarin bestu, um byggingarkranann sem féll á nýbyggingu og yfir á planið við pylsuvagn Bæjarins bestu í Hafnarstræti á tólfta tímanum í morgun.
„Kraninn lenti rétt hjá okkur og hlassið sem var í krananum lenti beint fyrir aftan vagninn,“ segir Skúli sem var við afgreiðslu þegar þetta átti sér stað. Nokkrir voru í röðinni við vagninn um þetta leyti, þó færri en vananlega á þessum tíma dags, en sá sem var næstur í röðinni byrjaði að vara alla við og æpti á fólk að koma sér í burtu.
Þar á meðal Skúla sem var sjálfur í vagninum að afgreiða pylsur af sinni alkunnu snilld. „Ég vissi ekkert hvað var að gerast,“ segir Skúli í samtali við Vísi en til allrar hamingju fór allt vel og urðu engin slys á fólki.
Vagninn er lokaður núna í hádeginu eftir þetta atvik en lögregla hefur girt svæðið af. Ekki er hægt að vera við hann og hvað þá í honum fyrr en búið er að hífa kranann í burtu sem hangir nú á stillansinum við hótelið.
Skúli segir að miðað við þyngdina á hlassinu þá var mikil lukka að það lenti ekki á vagninum.
„Vagninn hefði farið í mask ef þetta hefði lent á honum.“
Timburbúnt í krananum
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafði nýyfirgefið vettvanginn þegar blaðamaður náði af honum tali.
„Það er með ólíkindum að ekki hafi orðið slys á fólki,“ segir hann í samtali við Vísi. Ekki liggi fyrir hvað hafi orðið til þess að kraninn féll en mögulega hafi einn fótur kranans gefið sig.
Timburbúnt hékk í krananum og féll rétt við pylsuvagninn.
„Það munaði ekki miklu að þetta hefði lent ofan á vagninum.“
Heimild: Visir.is