
Akureyrarbær hefur ákveðið að bjóða út byggingarrétt á svokölluðum Tjaldsvæðisreit. Reitnum hefur verið skipt í þrjár lóðir fyrir íbúðarhús. Um er að ræða hið fornfræga tjaldsvæði við Þórunnarstræti sem lokað var fyrir nokkrum árum.
Ekki er hægt að bjóða eingöngu í eina lóð heldur eru þær boðnar út sem ein heild en lágmarksverð fyrir byggingarrétt lóðanna er rúmar 295 milljónir króna.
Umræddar lóðir eru Byggðavegur 102-110 þar sem verða fimm stakstæð íbúðarhús á fjórum hæðum með sameiginlegum bílakjallara, Hrafnagilsstræti 20/Þórunnarstræti 95-101 þar sem gert er ráð fyrir fimm stakstæðum íbúðarhúsum á fjórum hæðum með sameiginlegum bílakjallara og Þórunnarstræti 105 þar sem gert er ráð fyrir einu stakstæðu íbúðarhúsi á þremur hæðum með 15-17 íbúðum.
Í því húsi eiga að vera almennar íbúðir sem falla undir ákvæði um hlutdeildarlán eða að íbúðirnar verði seldar sem heild til óhagnaðardrifins félags.
Tilboðsfrestur er til 12. febrúar næstkomandi.
Heimild: Mbl.is











